Ökuníðingur á leið í afplánun

Toyota Yaris bifreiðin hafnaði út í skurði
Toyota Yaris bifreiðin hafnaði út í skurði mbl.is/Júlíus

Ökuníðingur sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði norðanvert í Hvalfirði í gærkvöld eftir mikinn eltingarleik er á leið í apflánun. Maðurinn hlaut nokkurra mánaða fangelsisdóm og var ákveðið að kalla hann í afplánun.

Skýrslur voru teknar af manninum í dag en hann eyddi nóttinni á sjúkrahúsi.

Maðurinn ók á ofsahraða út úr höfuðborginni um kvöldmatarleytið í gær  og um Vesturlandsveg. Ók hann þaðan inn í Hvalfjörð og var að nálgast Vesturlandsveg að nýju þegar bifreið hans hafnaði utanvegar ekki langt frá Grundartanga. Fjöldi lögreglubifreiða elti ökuníðinginn enda mikil umferð um alla þjóðvegi í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt tók sjúkrabifreið þátt í eftirförinni.

Að sögn lögreglu hefur ekki fengist skýring á athæfi mannsins. Hann hvar hvorki undir áhrifum áfengis né vímuefna þegar lögregla handtók hann en í miklu óstandi.

Maðurinn á að baki nokkurn brotaferil. Síðdegis kom í ljós að hann á eftir að afplána nokkurra mánaða fangelsisdóm sem hann hlaut fyrir hegningarlagabrot. Hann var þegar færður til afplánunar.

Eins og skýringarmyndirnar að ofan sýna lá leið ökuníðingsins fyrst …
Eins og skýringarmyndirnar að ofan sýna lá leið ökuníðingsins fyrst um íbúðagötur og göngustíga í Breiðholtinu, síðar um fjölfarnar umferðaræðar og loks Vesturlandsveg og þaðan inn Hvalfjörð. Á þessum tíma, um kvöldmatarleytið, var þungur umferðarstraumur inn í höfuðborgina og mildi að ekki urðu slys á öðrum ökumönnum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert