Ungur karlmaður sem grunaður er um að hafa stolið bifreið í Þorlákshöfn um helgina hefur ekki fundist og biður lögreglan á Selfossi þá sem geta veitt upplýsingar um ferðir hans að hafa samband. Jafnframt hafa þeir sem brutust inn í verslun TRS við Eyrarveg á Selfossi ekki heldur fundist né þýfið.
Aðfaranótt sunnudags var bifreiðinni ZN 581, hvít Renault Express árgerð 1993, stolið frá Reykjabraut 7 í Þorlákshöfn. Um hádegi í dag fannst bifreiðin, óskemmd, við Ástjörn á Selfossi. Um kl. 06:30 sást til ungs manns, á að giska 17 ára ljóshærður lágvaxinn í svörtum fötum, við að reyna að komast inn í bifreiðar við Selvogsbraut. Lögreglan á Selfossi biður þá sem veitt geta upplýsingar um ferðir bifreiðarinnar eru beðnir að hafa samband við lögregluna í síma 480 1010.
Um kl. 01:00 aðfaranótt fimmtudags tilkynnti öryggisfulltrúi innbrot í verslun TRS við Eyrarveg á Selfossi. Farið var inn í húsið með því að brjóta rúðu á suðurhlið hússins. Nokkrum fartölvum, símum og öðrum tækjabúnaði var stolið úr versluninni. Málið er óupplýst og biður lögregla þá sem veitt geta upplýsingar um ferðir manna og ökutækja um og eftir miðnætti þessa nótt að hafa samband.