Vill Ísland inn í ESB

Utanríkisráðherra Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, er hlynntur því að Ísland fái aðild að Evrópusambandinu (ESB).

„Íslenski forsætisráðherrann kom að máli við mig nýlega á fundi í Brussel og ég gerði honum ljóst að við myndum styðja umsókn Íslendinga um aðild að Evrópusambandinu,“ sagði Steinmeier í viðtali við ZDF-sjónvarpsstöðina í gær.

„Allir vita að Ísland er mun þróaðra ríki en nokkurt annað ríki sem vill komast inn í Evrópusambandið.“ Hann bætti svo við: „Ég get ekki ímyndað mér að Angela Merkel kanslari sjái málið með öðrum augum en ég.“

Steinmeier er í þýska Jafnaðarmannaflokknum sem myndar ríkisstjórn Þýskalands ásamt kristilegum demókrötum (CDU/CSU). Hann verður kanslaraefni flokksins í þingkosningum í Þýskalandi sem haldnar verða í september.

Í dagblaðinu Süddeutsche Zeitung á laugardag kom fram að kristilegir demókratar í Bæjaralandi (CSU) væru andvígir því að Ísland fengi aðild að Evrópusambandinu.

Markus Ferber, leiðtogi CSU á Evrópuþinginu, sagði í samtali við blaðið að Evrópusambandið gæti ekki bjargað Íslandi út úr efnahagskreppunni. Það væri því eðlilegra að ræða uppbyggingu ESB áður en fleiri ríkjum yrði boðin aðild og vísaði hann þar til jákvæðra viðbragða framkvæmdastjórnar ESB þegar Íslendingar afhentu aðildarumsóknina á fimmtudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert