Karlmaður á þrítugsaldri, sem olli stórhættu þegar hann ók stolnum bíl í gegnum Reykjavík og upp í Hvalfjörð með lögreglu á hælunum á sunnudag, hefur áður gerst sekur um sambærilegt ódæði, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Maðurinn hlaut dóm fyrir ofsaakstur og í kjölfar skýrslutöku í gær var hann færður á Litla-Hraun til afplánunar refsingar vegna hans.
Í júní 2007 sinnti maðurinn ekki stöðvunarmerkjum lögreglu þegar hann ók norður Vesturlandsveg á um 160 km hraða. Hann jók hraðann og ók upp í Hvalfjörð þar sem hann ók á allt að 200 km hraða. Lögreglumönnum tókst að þvinga bifreið hans út af veginum skammt frá botni fjarðarins, norðan við Brynjudalsá. Í kjölfarið neitaði hann að yfirgefa bílinn og ógnaði lögreglumönnum með klaufhamri.
Maðurinn, sem slasaðist nokkuð á sunnudag þegar hann var stöðvaður við Svínadalsafleggjara, var útskrifaður af Landspítalanum í gærmorgun. Hann var í skýrslutöku í gærdag, allt þar til hann var fluttur á Litla-Hraun.