Smávöxtur er nú í Skeiðará, samkvæmt upplýsingum Veðurstofu Íslands. Þá hafa nokkrir ísskjálftar mælst í austanverðum Skeiðarárjökli frá því snemma í morgun. Skjálftarnir hafa verið staðsettir u.þ.b. 1,5 km suðvestur af Færnestindum en í Norðurdal, norður af tindunum, eru fjögur jökulstífluð lón.
Fram kemur á vef Veðurstofunnar að þegar flogið var yfir svæðið þann 11. júlí hafi lónin verið full af vatni. Aftur var flogið yfir svæðið klukkan 10 í morgun og sást þá að runnið hafi úr lónunum.
Athugun við Skeiðarárbrú leiddi einnig í ljós að smávöxtur er í Skeiðará.
Fyrr í þessum mánuði urðu miklar breytingar á rennsli Skeiðarár þegar vatnið fór að renna í Gígjukvísl. Farvegurinn undir Skeiðarárbrú hefur því verið næstum þurr að undanförnu og eina vatnið þar komið úr Morsá og lækjum á svæðinu.