Þingmenn framsóknar áhyggjufullir

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson.

Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segist hafa miklar efasemdir um samkomulag stjórnvalda og skilanefnda bankanna sem kynnt var í gær.

Eins og fram hefur komið gerir samkomulagið ráð fyrir að skilanefndir föllnu bankanna, Glitnis og Kaupþings, eignist eignarhluti í nýju bönkunum, Íslandsbanka og Nýja Kaupþingi. Í tilviki Nýja Kaupþings eignast skilanefndin allt að 87% hlutafjár. Í tilviki Íslandsbanka hefur skilanefnd Glitnis öðlast rétt til að eignast, fyrir hönd kröfuhafa, allt hlutafé í bankanum.

Bundnir til að gæta hagsmun annarra en almennings 

„Nú eru bankarnir í höndum manna sem eru lagalega bundnir til að gæta hagsmuna annarra en almennings. Ég treysti því ekki að hagur almennings verði 100% ofan á eins og hann var í meðförum ríkisins. Ég gagnrýni mjög hvernig þetta var framsett af hálfu fjármálaráðherra því í mínum huga var þetta mjög einfaldur gjörningur. Það var fært til baka það sem var tekið út [úr bönkunum]. Menn hafa í marga mánuði verið að ræða hvaða verð ætti að koma fyrir hlutinn, en svo kom aldrei verð því hann var aldrei færður inn," segir Höskuldur.

Höskuldur situr í viðskiptanefnd og fjárlaganefnd en samkomulag stjórnvalda og skilanefnda föllnu bankanna var kynnt fyrir nefndarmönnum efnahags- og skattanefndar, fjárlaganefndar og viðskiptanefndar á sérstökum fundi í gær.

Höskuldur er ekki eini þingmaður Framsóknarflokksins sem lýst hefur efasemdum með samkomulagið. Eygló Harðardóttir segist í samtali við DV í dag hafa mjög miklar áhyggjur.

Eygló Harðardóttir.
Eygló Harðardóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert