Viðgerð á Hallgrímskirkjuturni mun að líkindum kosta 540 milljónir sem er um helmingi meira en áætlað var þegar viðgerðin hófst. Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, kynnti stöðuna fyrir ríkisstjórn í morgun en ríkið, Reykjavíkurborg og þjóðkirkjan standa saman að viðgerðinni.
Ragna sagði ekki ljóst hvernig ríkið myndi bregðast við stöðunni, í morgun hefði hún einungis kynnt stöðuna fyrir ríkisstjórninni. Gert væri ráð fyrir framlögum til turnviðgerðarinnar með árlegu framlagi á fjárlögum á árunum 2007-2013, 12,4 milljónir á ári. „Það er verið að athuga hvort ekki finnist á þessu einhver lausn,“ sagði Ragna.
Gert er ráð fyrir að viðgerðinni ljúki í október.