Síðasta sólarhringinn hafa greinst þrjú tilfelli á Íslandi af nýju inflúensunni A(H1N1)v, oft nefnd svínaflensa og hefur hún því greinst hjá samtals 18 manns á Íslandi frá því í maí sl. Þetta kemur fram á vef landlæknisembættisins.
Um er að ræða 24 ára karlmann sem ekki hefur ferðast erlendis og ekki haft tengsl við ferðalanga. Þá greindist inflúensan hjá 54 ára gömlum bandarískum ferðamanni sem kom til landsins 15. júlí sl. og 7 ára gömlum dreng sem kom frá Bretlandi 17. júlí sl.
Engin þessara sjúklinga var með alvarleg einkenni og eru þeir allir á batavegi.
Hefur þeim sem greinst hafa undanfarna viku fjölgað mjög en þann 16. júlí sl. voru þeir átta talsins.