Þrotabú Samsonar, eignarhaldsfélags Björgólfsfeðga, hefur höfðað fimm mál gegn Björgólfi Guðmundssyni sjálfum og tengdum félögum vegna viðskipta sem áttu sér stað áður en Samson fór í greiðslustöðvun. Lýstar kröfur á hendur þrotabúi Samsonar nálgast 100 milljarða í dag, en eignir þess eru aðeins rúmir 2,3 milljarðar.
Þrotabú Samsonar stefnir Straumi Equities vegna viðskipta sem áttu sér stað 25. júní 2008 með hlutabréf í eignarhaldsfélaginu MGM en eina eign þess félags var 16,7% hlutur í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Svo virðist sem Samson hafi keypt hlutabréfin á yfirverði og vill þrotabú Samsonar rifta kaupunum og að því verði endurgreitt kaupverðið.
Keypt og selt
Hinn 25. júní 2008 keypti Samson allt hlutafé Urriða, dótturfélags Straums Burðaráss, í MGM eignarhaldsfélagi. Var umsamið kaupverð 822,4 milljónir króna og greitt að fullu við undirskrift kaupsamnings, en kaupverðið var fjármagnað með láni frá Straumi Burðarási. Sama dag seldi Samson síðan Forsíðu ehf., sem einnig var í eigu Björgólfs Guðmundssonar og hélt utan um eignarhlut í Árvakri, allt hlutafé í MGM fyrir sömu fjárhæð, þ.e. 822,4 milljónir. Voru kaupin fjármögnuð með láni Samsonar til Forsíðu ehf. Í gegnum MGM, Forsíðu og þriðja félagið, Ólafsfell, hafði Björgólfur ráðið meirihluta í Árvakri.
Straumur Equities sameinaðist Eignarhaldsfélaginu Urriða í febrúar á þessu ári og tók við öllum réttindum og skyldum félagsins, en bæði félögin voru dótturfélög Straums Burðaráss. Stærsti hluthafinn í þeim banka var Björgólfur Thor Björgólfsson.
Óskiljanlegt kaupverð
Þrotabú Samsonar byggir á því að MGM hafi verið verðlaust þegar viðskiptin áttu sér stað enda hafi fjárhagsleg staða Árvakurs verið verulega slæm á þeim tíma. Um sé að ræða riftanlegan gjafagerning í skilningi laga um gjaldþrotaskipti. Vísar þrotabú Samsonar í skýrslu stjórnar Árvakurs um starfsemina árið 2008, sem lögð var fram á hluthafafundi hinn 27. mars 2009. Í skýrslunni eru reifuð atvik sem reyndust Árvakri fjárhagslega erfið á árinu 2008. Í stefnunni kemur fram að í ljósi fjárhagslegra erfiðleika Árvakurs hafi kaupverð Samsonar verið á „þessum tímapunkti í raun óskiljanlegt“ og því sé hafið yfir allan vafa að um gjafagerning hafi verið að ræða í skilningi gjaldþrotalaga.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var þáverandi stjórnendum Árvakurs ekki kunnugt um þessi viðskipti.
Því er haldið fram í stefnunni að tjón Samsonar vegna kaupanna á MGM af Urriða sé gríðarlegt. Með öðrum orðum fóru 822,4 milljónir, sem ættu í dag að tilheyra þeim alþjóðlegu bönkum og lífeyrissjóðum sem eiga kröfur á Samson, í það að auka verðmæti í Urriða.