Daily Telegraph fjallar um reiði Íslendinga

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Greint er frá því í breska blaðinu Daily Telegraph að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra Íslendinga, sé líkt og margir Íslendingar, enn mjög ósáttur við það bresk yfirvöld skuldi hafa beitt hryðjuverkalögum gegn Íslendingum í kjölfar bankahrunsins á Íslandi.

Í grein blaðsins segir að Steingrímur segi aðgerðir breskra yfirvalda fáránlegar og að hann telji þær hafa tafið fyrir því að samkomulag næðist um endurgreiðslur vegna trygginga á Icesave innlánum í Bretlandi.

„Að beita hryðjuverkalögum til að frysta íslenskar eignir er langt handan við allt það sem er ásættanlegt og það hefur skapað mjög slæmt andrúmsloft,” segir hann í viðtali við blaðið. Þá segir hann Íslendinga eiga enn erfitt með að skilja að Brestum skuli hafafundist þeir eiga heima á lista með al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum. Hann telji þó að finna verði leiðir til að leysa Icesave-málið á siðmenntaðan hátt.

Steingrímur segir einnig í viðtalinu að hann telji það siðferðislegt hlutverk sitt að binda endahnút á tíu ára ráns- og ævintýraferð frjálsrar markaðshyggju. „Við munum alfarið snúa baki við slíkri hamfarastefnu og færa landið aftur í sinn rétta farveg sem norrænt velferðasamfélag, með sterku félagslegu kerfi og endurskiptingu auðs,” segir hann.

Einnig er rætt við rithöfundinn Einar Má Guðmundsson, í grein Daily Telegraph sem segir framkomu breskra yfirvalda hafa verið mjög særandi. „Við höfum alltaf verið góðir bandamenn. Við misstum hlutfallslega fleiri sjómenn við það að flytja þorsk til Englands í stríðinu en þið misstuð á stríðsvellinum.” segir hann.

„Þetta sannar það sem sósíalistar hafa alltaf sagt, að í heimi kapítalismans eru engir vinir. Ég hef samúð með breskum almenningi sem í einfeldni sinni treysti Landsbankanum en ég hafði aldrei heyrt um Icesave áður en þetta gerðist. Okkur var sagt að það sem bankarnir gerðu í útlöndum tengdist okkur ekki neitt en þegar allt fór í vitleysu þá féll ábyrgðin á okkur. Það er ástæðan fyrir því að við höfum á tilfinningunni að þetta sé ekki réttlátt.”

Einnig kemur fram í greininni að íslenskir embættismenn séu Bretum reiðir fyrir að tengja saman lausn Icesave-deilunnar og lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslendinga. Er haft eftir einum þeirra að Bretar komi enn fram af átjándu aldar yfirgangi.

Einar Már Guðmundsson.
Einar Már Guðmundsson. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert