Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra Alþýðubandalagsins og félagi í Vinstri hreyfingunni - grænu framboði, gagnrýnir formann flokksins harðlega í grein á vefritinu Smugunni í gær vegna niðurstöðunnar í ESB-málinu á Alþingi og málsmeðferðina.
Grein Hjörleifs er svohljóðandi:
„Umsókn um aðild að Evrópusambandinu sem rúmlega helmingur alþingismanna samþykkti 16. júlí 2009 er stærsta ákvörðun í sögu íslenska lýðveldisins. Þessi niðurstaða kemur á óvart með hliðsjón af stefnumörkun stjórnmálaflokkanna í aðdraganda alþingiskosninga síðastliðið vor. Aðeins Samfylkingin hafði fyrirvaralausa stefnu um aðildarumsókn, Framsóknarflokkurinn hafði opnað fyrir aðildarumsókn með skýrum fyrirvörum, Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti á landsfundi í mars að bera aðildarumsókn undir þjóðaratkvæði og Vinstrihreyfingin grænt framboð hélt fast við fyrri stefnuyfirlýsingu gegn aðild að ESB. Kvöldið fyrir kjördag gaf formaður VG ótvíræða yfirlýsingu um að af hans hálfu kæmi ekki til greina að fallast á aðildarumsókn í framhaldi af kosningunum. Borgarahreyfingin vísaði á þjóðaratkvæðagreiðslu en hafði að öðru leyti óljósa afstöðu til málsins. Stefnumörkun flokkanna og úrslit kosninganna gáfu ekki tilefni til að ætla að aðildarumsókn yrði niðurstaða tæpum þremur mánuðum eftir kosningar.
Stjórnarmyndun og stefnuyfirlýsing
Vinstrihreyfingin grænt framboð og Borgarahreyfingin voru ótvíræðir sigurvegarar kosninganna og Samfylkingin bætti nokkuð sinn hlut. Þannig fengu flokkarnir sem áður höfðu myndað minnihlutastjórn ótvírætt umboð til stjórnarmyndunar. Ekkert var efnislega látið uppi um gang viðræðna samninganefndar flokkanna fyrr en samstarfsyfirlýsing þeirra lá fyrir og var kynnt flokksstofnunum þeirra til afgreiðslu. Augljóslega var látið reka á reiðanum um þennan lykilþátt af hálfu VG án þess að fá málið á hreint strax við upphaf viðræðna. Á fundi flokksráðs VG sem ég sat sem óbreyttur félagi gagnrýndi ég harðlega fyrirliggjandi samning flokkanna um ESB-málefni, sem gerði ráð fyrir að utanríkisráðherra legði fram á vorþingi tillögu um aðildarumsókn. Gefið var í skyn að Össur utanríkisráðherra myndi flytja tillögu sína sem þingmaður Samfylkingarinnar, en þegar til kastanna kom var tillagan lögð fram í nafni ríkisstjórnarinnar án nokkurs tilgreinds flutningsmanns. Um framlagningu mála á Alþingi gilda tvær ólíkar greinar stjórnarskrárinnar, 25. grein um frumvörp og aðrar samþykktir sem ríkisstjórn leggur fram í umboði forseta lýðveldisins og 55. grein sem varðar tillögur einstakra ráðherra og þingmanna. Framlagning skv. 25. grein stjórnarskrárinnar breytti eðli málsins og með þessu var VG orðin beinn aðili að tillöguflutningnum andstætt stefnu sinni og samþykktum. Staða Samfylkingarinnar til að knýja fram aðildarumsókn með samþykki Alþingis hafði að sama skapi styrkst.
Kjósendur og félagar VG furðu lostnir
Mörg flokksfélög VG og einstakir félagsmenn hafa á undanförnum vikum lýst þungum áhyggjum yfir hvert stefndi í þessu máli og heitið á þingmenn VG að greiða atkvæði gegn ríkisstjórnartillögunni við lokaafgreiðslu. Því kalli hlýddu 5 þingmenn flokksins, þar á meðal Jón Bjarnason ráðherra. Formaður þingflokksins, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sat hjá eftir að hafa skrifað upp á nefndarálit utanríkismálanefndar með fyrirvara. Þetta dugði hins vegar ekki til því að meirihluti þingflokks VG greiddi atkvæði með þingsályktunartillögunni og tryggði henni þar með brautargengi. Þeirri spurningu er ósvarað hvers vegna 8 þingmenn flokksins fylgdu ekki eftir stefnu hans og greiddu atkvæði gegn aðildarumsókn eins og fullyrt var við myndun ríkisstjórnarinnar að þeir hefðu fullt frelsi til. Í atkvæðaskýringum nokkurra þessara þingmanna VG kom skýrt fram að afstaða þeirra gegn ESB-aðild væri eindregin og allir bjuggust við að hún endurspeglaðist sem „nei“ í atkvæðagreiðslunni. Hið gagnstæða varð hins vegar raunin sem ber vott um að eitthvað annað en afstaða til ESB-umsóknar hafi ráðið niðurstöðu þeirra. Það er með ólíkindum ef einstakir þingmenn VG hafa látið hótanir Samfylkingarinnar um stjórnarslit ráða niðurstöðu í svo afdrifaríku máli. Ríkisstjórn sem þannig er um búið milli forystumanna og þingmanna sem tryggja eiga henni þingmeirihluta á augljóslega ekki langt líf fyrir höndum.
Höktandi útskýringar formanns
Eftir lokaafgreiðslu Alþingis sendi formaður VG, Steingrímur J. Sigfússon, „ávarp“ til flokksmanna. Þar heldur hann því fram að niðurstaðan í ESB-málinu sé í samræmi við landsfundarsamþykkt flokksins frá í mars síðastliðnum. Þar var hins vegar ályktað um að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Jafnframt segir þar að aðild eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Um síðara atriðið er full samstaða allra flokka ef aðildarsamningur einhverntíma liggur fyrir, en það er ekki hlutverk þeirra sem andvígir eru ESB-aðild að kalla eftir slíkum samningi. Það er því rangt hjá formanninum að jáyrði 8 þingmanna VG við að sækja um aðild sé „vel samrýmanleg landsfundarályktun í mars síðastliðnum“, að ekki sé talað um hans eigin yfirlýsingar frammi fyrir alþjóð kvöldið fyrir kjördag. Þeir sem vísa til þess að þjóðarviljinn eigi að ráða í máli sem þessu hefðu átt að fylgja þeirri skoðun sinni eftir með því að greiða atkvæði með tillögu þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að þjóðin skæri úr um hvort sækja ætti um aðild. Það gerðu 5 þingmenn VG en 9 kusu að fella þá tillögu. Framhald útskýringa formannsins er í véfréttastíl, m.a. yfirlýsing hans þar sem segir: „ ... þá höfum við einnig gert það alveg ljóst að við áskiljum okkur rétt til að leggja til á hvaða stigi sem er að þeim [viðræðum um aðildarsamning] verði hætt.“ Hliðstæð orð hafði Steingrímur uppi í atkvæðaskýringu sinni á Alþingi. Þetta er ef til vill sú útgönguleið sem hann heldur opinni, en jafnvíst er að stjórnarsamstarfinu lýkur þann dag sem hún er valin og Samfylkingin mun þá leita annarra bandamanna. Hvort þeir finnast er mörgu háð, en með því að greiða fyrir aðildarumsókn að ESB var stigið örlagaskref þvert gegn margítrekuðum stefnuyfirlýsingum VG allt frá stofnun flokksins.
Hefnist þeim er svíkur sína huldumey ...
Aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur algjöra sérstöðu þar eð hún varðar stöðu lands og þjóðar um langa framtíð. Efnahagshrunið á síðasta hausti er léttvægt þegar spurningin um sjálfstæði og fullveldi er annars vegar. Það er því hryggilegt þegar glýjur um vinstristjórn með vegvilltri Samfylkingu glepja mönnum sýn og horfið er frá markaðri stefnu eins og hér hefur gerst. Erfitt verður að bæta fyrir unnin afglöp, þar sem rofinn hefur verið trúnaður milli forystu og fjölda fylgismanna sem sett höfðu traust sitt á Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Ég efast um að núverandi forysta flokksins, formaður og varaformaður, átti sig á hversu djúpt þetta mál ristir og hversu afdrifaríkt undanhaldið getur orðið. Aðildarumsóknin sem nú liggur í Brussel mun minna á sig dag hvern næstu árin og stjórnsýsla, sem var önnum kafin fyrir, verður upptekin við að rýna þar í tilskipanir framandi valds. Ætlar forysta VG að taka sig á og rifta þessum gjörningi og gera þar með flokkum kleift að reisa merkið á ný?“