Tollurinn tekinn í Keflavík

Bandarískar og kanadískar umbúðamerkingar standist ekki íslenskar kröfur.
Bandarískar og kanadískar umbúðamerkingar standist ekki íslenskar kröfur. mbl.is/Árni Sæberg

Danska dagblaðið Politiken greinir frá því á vefsíðu sinni að þeir sem kaupi áfengi á flugvöllum erlendis komist ekkert endilega með það til síns heima. Bent er á að áfengið, sem er t.d. keypt á flugvelli í Bandaríkjunum eða Kanada, er tekið af ferðamönnum sem millilenda á Íslandi og eiga þaðan tengiflug til Kaupmannahafnar.

Fram kemur að það sé ekki sniðugt að kaupa áfengi á flugvellinum í Toronto í Kanada eigi menn bókað tengiflug með Icelandair og millilendi því í Keflavík.

Blaðamaður Politiken, sem fór slíka ferð, greinir frá því að þegar allir farþegarnir hafi staðið við brottfararhliðið á flugvellinum í Toronto hafi heyrst tilkynnt í hátalarakerfinu að þeim sem hefðu keypt áfengi á vellinum væri ráðlagt að skila því. Ekki væri leyfilegt að taka með sér áfengi til Íslands. Bandarískar og kanadískar umbúðamerkingar standist ekki kröfur Evrópusambandsins.

Blaðamaðurinn segir hins vegar að tilkynningin hafi borist of seint. Ferðamennirnir hefðu ekki haft tíma til að ganga alla leið til baka til að skila vörunni og fá endurgreitt. Þá hafi sumir einfaldlega hunsað tilkynninguna eða ekki skilið hana.

Við komuna til Íslands hafi tollurinn svo verið tekinn af farþegunum, sem hafi eflaust ekki verið skemmt.

Blaðamaður Politiken hafði samband við Icelandair í kjölfarið til að leita skýringa. Talskona flugfélagsins benti á að þetta væru reglur sem íslensk stjórnvöld hefðu samþykkt og hefði því ekkert með flugfélagið að gera.

Blaðamaðurinn spurði hvort það væri ekki hægt að skýra frá þessu t.d. á vef flugfélagsins. Talskonan segir að það hafi verið gert, en það megi eflaust hnykkja aftur á þessu.

Fréttin á vef Politiken. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert