Fréttaskýring: Banaslys útlendinga oft af svipuðum meiði

mbl.is/Einar Falur

Tuttugu útlendingar hafa látið lífið í umferðinni hér á landi frá árinu 2000. Í mörgum tilfellum koma íslensku malarvegirnir við sögu sem þó var ekki raunin í banaslysinu í fyrradag. 

Margt er líkt með alvarlegum umferðarslysum hér á landi þar sem útlendingar eiga í hlut en þeim fjölgar jafnan í júlí og ágúst þegar ferðamannastraumur er mestur. Í mörgum tilfellanna er um að ræða útafakstur og bílveltur sem rekja má til reynsluleysis í akstri við íslenskar aðstæður. Þá er bílbeltaleysi áberandi í banaslysum útlendinga og er í þeim tilfellum iðulega álitið að beltin hefðu bjargað lífi viðkomandi.

Andlát erlendrar konu í fyrradag þegar bíll sem hún var farþegi í valt ofan í fjöru í Álftafirði er annað banaslysið í umferðinni á þessu ári þar sem útlendingar eiga í hlut en í hinu tilfellinu var ekið á gangandi vegfaranda. Að sögn Önundar Jónssonar, yfirlögregluþjóns á Vestfjörðum, er breiður, malbikaður vegur á staðnum þar sem bíllinn fór út af og er ekki vitað hvað olli slysinu.

Sigurður Helgason hjá Umferðarstofu segir tvennt skera sig úr er varðar banaslys útlendinga. „Það er nokkuð ljóst að stærsta vandamálið er beltaleysi en langflest þessara slysa eru útafakstrar.“ Algengt sé að slík slys verði þar sem malbik endar og malarvegur tekur við, en þá athugi margir ekki að draga þurfi úr hraðanum þegar á mölina er komið.

Áhersla á upplýsingar
Sé litið á tölfræðina kemur í ljós að frá árinu 2000 létust 20 útlendingar í 18 umferðarslysum hér á landi. Flestir þeirra voru ferðamenn en í einhverjum tilfellum var þó um að ræða fólk sem var búsett hérlendis. Í tólf tilfella var um að ræða útafakstur, sennilega af malarvegi eða vegna lausamalar í átta þeirra.

Ekki er til sundurliðun á beltanotkun fyrir allan tímann en skv. skýrslu Rannsóknanefndar umferðarslysa frá 2005 notuðu aðeins tveir af þeim sjö útlendingum sem létust í banaslysum hér á landi á árunum 2000–2004 bílbelti. Í mörgum slysanna er talið að belti hefðu bjargað lífi viðkomandi.

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir mikla áherslu lagða á öryggismál í tengslum við akstur ferðamanna hérlendis. „Þegar útlendingur fær bílaleigubíl afhentan er stórt og mikið skilti á stýrinu með upplýsingum um hvernig er að keyra á Íslandi. Þar er sérstaklega varað við malarvegum sem og sauðfé og öðru því sem þykir hættulegt hér á vegum og útlendingar eru ekki vanir.“ Þessum upplýsingum sé einnig komið á framfæri við þá útlendinga sem hingað koma á eigin bílum með Norrænu, m.a. með því að afhenda þeim bæklinga.

Hvað varðar merkingar á vegunum sjálfum segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, að yfirleitt séu skiltin alþjóðleg og ekki með miklum texta. „Við höfum verið mjög íhaldssamir með að taka upp tvítyngt vegamerkingakerfi.“ Undantekningin sé þó merkingar þar sem farið er inn á malarveg af bundnu slitlagi, en þar hafi á mörgum stöðum verið gerð tilraun með stærri skilti á ensku, m.a. vegna þess að umrædd merking er séríslensk. Því þekki erlendir ökumenn þau ekki heiman frá sér.

Bætt merki
Nokkur banaslys útlendinga hér á landi undanfarin ár urðu þar sem framkvæmdir við vegabætur stóðu yfir. Í einu tilfelli voru vegavinnuskilti á íslensku auk eins hámarkshraðamerkis.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, tekur undir að merkingum vegna vegaframkvæmda hafi verið ábótavant, en það standi til bóta. „Við erum nýbúnir að taka í notkun nýjar reglur um vinnustaðamerkingar þar sem merkin eru stærri og fleiri auk þess sem eftirlit með þeim verður meira en hingað til.“ M.a. er sú nýbreytni tekin upp að nota neongræn ljós þar sem hraðinn hefur verið tekinn niður og segir Pétur vonir standa til að það skili góðum árangri. Þá verði þegar í útboðum gert ráð fyrir merkingum og í stærri verkum þurfi að setja merkingar inn á verkteikningar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert