Háskóli Íslands ákvað í gær að falla frá innheimtu 15% álags á skráningargjald þeirra nemenda sem greiddu gjaldið eftir 10. júlí. Þeim sem höfðu borgað álag á skráningargjaldið verður endurgreitt álagið. Kristín Jónasdóttir, skrifstofustjóri nemendaskrár HÍ, sagði að ákveðið hefði verið að fella álagið niður vegna þess hve margir misskildu greiðsluseðlana sem sendir voru út.
Nemendur hafa frest til að greiða skráningargjaldið til 10. ágúst. Eftir það er litið svo á að vilyrði um skólavist falli niður. Kristín sagði að fyrirkomulagið hefði verið þannig í fyrra að vilyrði um skólavist féll niður hjá þeim sem ekki greiddu fyrir 10. júlí.
Þeir sem ekki höfðu greitt skráningargjaldið fyrir þann dag fengu nýja greiðsluseðla með 15% álagi, enda voru þeir að skrá sig utan venjulegs skráningartímabils. Þetta olli þá mikilli óánægju nemenda. Nú var farin önnur leið og innheimtufyrirkomulagið útskýrt á seðlunum. Engu að síður misskildu margir greiðsluseðlana. Kristín sagði að uppsetning seðlanna yrði endurskoðuð fyrir næsta ár.