Gildandi ábyrgðarmannakerfi námslána afnumið

Alþingi lögfesti í dag frumvarp menntamálaráðherra sem felur í sér afnám ábyrgðarmanna vegna námslána, svo fremi að lántakandi standist lánshæfismat.

Námsmaður sem uppfyllir skilyrði stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, LÍN, um lánshæfismat þarf því ekki að leggja fram yfirlýsingu annars manns um sjálfskuldarábyrgð við lántöku. Sá sem ekki uppfyllir matið getur lagt fram ábyrgðaryfirlýsingu fjármálastofnunar eða yfirlýsingu ábyrgðarmanns um sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu námsláns ásamt vöxtum og verðtryggingu þess allt að tiltekinni fjárhæð.

Að mati fjármálaráðuneytisins eru líkur á að útgjöld LÍN aukist vegna aukinna afskrifta á lánum. Gengið er út frá því að fyrstu lánveitingar á grundvelli breyttrar reglu verði nú í haust.

Sá sem tekur námslán haustið 2009 útskrifast í fyrsta lagi í janúar 2010 og þarf þá í fyrsta lagi að hefja afborgun af lánum sínum árið 2012. Lendi hann í vanskilum gæti krafa á hann hugsanlega verið afskrifuð í fyrsta lagi árið 2013. Um það bil 98% af lánþegum LÍN eru í grunnnámi sem tekur 3 ár og þar af halda um 12% áfram í framhaldsnám sem yfirleitt tekur 2 ár. Með hliðsjón af þessu má reikna með að það taki 3 til 5 ár að byggja upp lánasafn sem á ársgrundvelli nemur áætluðum útlánum á árinu 2009 eða 15,8 milljörðum króna. Meðallán hjá Lánasjóðnum er nú um 3,5 milljónum króna og er áætlað að það greiðist upp á um það bil 20 árum.

Samkvæmt upplýsingum frá LÍN fara um það bil 5% krafna í milliinnheimtu og í flestum tilfellum fæst krafan greidd. Þó liggja ekki fyrir upplýsingar um hvort það sé lánþegi eða ábyrgðarmaður sem greiðir af láninu eftir milliinnheimtu.

Sé gengið út frá því að í um helmingi tilfella greiði ábyrgðarmaður af kröfum sem hafa farið í milliinnheimtu eða um 2,5% má gera ráð fyrir því að árleg afskriftar þörf Lánasjóðsins gæti aukist um 20 milljónir fyrsta árið miðað við 15,8 milljarða króna útlán á ári og 20 ára endurgreiðslutíma. En afskriftirnar verða svo 400 milljónir á ári eftir 20 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert