Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gat ekki sinnt fimm útköllum í nótt vegna mikilla anna. Morgunblaðið hefur undir höndum gögn sem sýna meðal annars að eitt þessara útkalla var vegna innbrots þar sem húsráðandi náði að hrekja innbrotsþjófana á brott.
Annar lögreglumaður hefur nú stigið fram og sent nafnlaust bréf um ástand lögreglunnar og áhrif umtalsverðs sparnaðar á embættið. Þar kemur fram að síðustu tvær nætur, sem undir venjulegum kringumstæðum eiga að teljast rólegar, hafi verið „brjálaðar“ og lögregla hafi ekki komist í mörg útköll. Eitt þeirra varðaði innbrot og veltir höfundur bréfsins fyrir sér hvað hefði gerst ef atvikið á Barðaströnd hefði endurtekið sig og þjófarnir ráðist á húsráðanda, sem var einn.
Í bréfinu kemur jafnframt fram að lögregluembættið skuldi enn nokkrum rannsóknarlögreglumönnum tæplega 200 yfirvinnutíma frá síðasta ári og nú sé hætt að greiða sérstaklega fyrir þegar lögreglumenn eru kallaðir út á bakvakt.
Þar segir einnig að í bökkum rannsóknarlögreglumanna séu mál frá því í maí sem enn standi óhreyfð og hafi ekki verið skoðuð. Í fyrra bréfi kom fram að margir væru með allt upp í 30-40 mál á sinni könnu hverju sinni.
Innbrotadeild lögð niður þegar innbrot hafa aukist um 61%
Í bréfinu segir að breytingar á rannsóknardeildum sem gerðar voru í maí hafi orðið til þess að innbrotadeild og rannsóknardeild umferðardeildar hafi verið lagðar niður. Bréfritari bendir á að innbrot hafi aukist hér á landi um 61% frá síðasta ári og í raun hefði átt að efla deildina en ekki leggja hana niður.
Þá segir ennfremur að fatabeiðnir rannsóknarlögreglumanna hafi verið lagðar niður. Rannsóknarlögreglumenn starfa iðulega ekki í einkennisklæðnaði og þykir ekki jafnræði í því að fá ekki fatnað til að vinna í. Bréfritari bendir á að einhverjum kunni að þykja eðlilegt að rannsóknarlögreglumenn kaupi sjálfir föt sín og af því tilefni áréttar hann að rannsóknarlögreglumenn lendi í ýmsu í sínu starfi.
„Þetta er fatnaður sem þú ert í innan um afbrotamenn, sprautufíkla, neyslusjúklinga og heimilislausa. Ég vil alls ekki gera lítið úr því fólki, það á erfitt og þarfnast hjálpar. En lífsstíll þeirra er vægast sagt ógeðfelldur og í húsleitum vaða rannsóknarlögreglumenn stundum hland- og saurblandað rusl, innan um blóðsmitaðar nálar og fíkniefnaleifar. Þeir eru í þessum fötum í hættulegu og óhreinu umhverfi. Sama hversu vel þú þværð þau muntu aldrei vilja taka utan um börnin þín í þeim.“
Þyrlan hefði komið fyrr
Þá er í bréfinu tekið fram að lögreglan á landsbyggðinni glími einnig við mikinn fjárskort og þar hafi verið tilgreindur ákveðinn hámarksakstur ökutækja. Í bréfinu segir að sum embætti geti ekki verið undir þessum hámarksakstri þó þau aki aðeins í útköll.
Bréfritari segir mjög algengt að einmennt sé í lögreglubílum úti á landi og nefnir dæmi um þegar til stóð að handtaka mann og viðkomandi lögreglumaður kallaði eftir aðstoð. Þá voru um 200 km í næsta bíl og segir í bréfinu að viðkomandi hefði eflaust þurft að bíða skemur eftir aðstoð frá þyrlu landhelgisgæslunnar úr Reykjavík en að bíða eftir bílnum.
Ríkislögreglustjóri lét gera áfangaskýrslu í apríl árið 2008 um mannaflaþörf lögreglu og var hún greind sem svo að 351 lögreglumann þyrfti til. Í bréfinu segir að í ársbyrjun 2007 hafi þeir verið 339 og í febrúar 2008 hafi þeir verið 298. Bréfritari segist ekki trúa því að þeim hafi fjölgað síðan þá.
Liðsheildin skiptir öllu
Bréfritari segir að lokum að það eina sem haldi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu gangandi þessa dagana sé liðsheildin og nú standi einnig til að sundra henni. Í september er gert ráð fyrir að vöktunum hjá embættinu verði stokkað upp og nýtt fyrirkomulag verði tekið upp þar sem enginn ákveðinn hópur manna vinni saman heldur velji hver og einn daga til að vinna á.