Allt þarf að vera í lagi þegar leggja á í langferð með aftanívagn í eftirdragi. Þyngd og ástand hjólhýsa, tjaldvagna og kerra af ýmsum stærðum og gerðum var á meðal þess sem var skoðað á Vesturlandsvegi við syðri enda Hvalfjarðarganganna nú síðdegis. Ekki er vanþörf á því um 12.000 slík ökutæki í umferð í landinu.
Á milli kl. 15 og 17 var búið að stöðva hátt í 60 ökutæki. Flestir hafa fengið að halda áfram án meiriháttar athugasemda. Tvær kerrur hafa hins vegar verið kyrrsettar sem voru of þungar.
Ástand ljósabúnaðar og vöntun á speglum er meðal þess sem lögreglan hefur gert athugasemdir við.
Ágúst Mogensen, forstöðumaður rannsóknarnefndar umferðarslysa, telur mikla þörf á að kanna ástand þessara ökutækja.
„Það er nýtilkomið að það þurfi að skoða ferðavagnanna. Við erum að fylgja því eftir, m.a. að fólk fari með vagnana í skoðun. Svo eru ýmis almenn atriði eins og ljósabúnaður, þyngd ökutækjanna og hvort að bílarnir sem eru að draga ferðavagnanna megi yfir höfuð draga þessa vagna,“ segir Ágúst.
Aðspurður segir hann stöðuna líta ágætlega út, en ljóst sé að þörf sé á eftirlit sem þessu. „Það er verið að draga vagna sem eru of þungir. Við erum að sjá ökutæki sem hafa ekki verið skoðuð. Ljósabúnaður ekki í lagi, tengibúnaður ekki í lagi. Það koma alltaf upp ákveðin atriði þegar þetta er skoðað,“ segir Ágúst.
„Ef ökutækin eru ekki í lagi, og að mati lögreglunnar og okkar ekki í ökuhæfu ástandi þá verða þau einfaldlega kyrrsett.“
Um samstarfsverkefni er að ræða en auk lögreglunnar og Rannsóknarnefndar umferðarslysa koma Umferðarstofa, Frumherji, Aðalskoðun og umferðareftirlit Vegagerðarinnar að eftirlitinu.