Það verða alltaf einhver útköll útundan

mbl.is/Júlíus

Íbúi á höfuðborgarsvæðinu flæmdi innbrotsþjófa á brott af heimili sínu aðfaranótt fimmtudags, án þess að lögreglan hefði tök á því að koma honum til aðstoðar.

Þetta var eitt af fimm útköllum sem lögreglan gat ekki sinnt þá nótt vegna anna, að því er fram kemur í öðru nafnlausu bréfi sem Morgunblaðinu hefur borist frá lögregluþjóni. „Þetta er í rauninni ekki nýtt,“ segir Arinbjörn Snorrason, formaður Lögreglufélags Reykjavíkur.

„Aflið hjá okkur er ekki með þeim hætti að við getum sinnt öllum útköllum.“ Þannig verði alltaf einhver útköll útundan, misalvarleg þó.

„Ég held að bráðaþjónustu sé sinnt þokkalega,“ bætir Arinbjörn við, en þegar lögreglumönnum sé fækkað úr 16-20 á vakt niður í 10 sé varla við öðru að búast en að erfitt sé að halda uppi fullnægjandi löggæslu. „Við erum alveg gapandi hissa á því að þingmenn skuli ekki vera búnir að taka þetta mál upp fyrir lifandis löngu.“

Guðmundur Fylkisson, aðalvarðstjóri í fjarskiptamiðstöð lögreglu, staðfestir að vaktin í fyrrinótt hafi verið mjög erilsöm. Hins vegar sé ástandið í raun þessu líkt á landinu öllu. Alls staðar hafi verið fækkað í lögreglunni en á sama tíma aukist kröfur um löggæslu. „Á landsbyggðinni býr fólk jafnvel við það að þurfa að bíða í 10-12 klukkustundir.“ Lögreglan verði einfaldlega að forgangsraða og í tilfellum eins og innbrotinu séu aðstæður metnar sem svo að mesta hættan sé yfirstaðin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert