„Þetta hefur byrgst upp innra með mér. Fyrra bréfið byrjaði sem einföld ábending en svo sá ég að það var svo margt sem þurfti að segja.“ Þetta segir lögreglumaður sem hefur sent tvö nafnlaus bréf til fjölmiðla í síðustu viku. Hann segir vinnufélaga sína sýna bréfritaranum mikinn stuðning, þó þeim sé ekki kunnugt um hver hafi skrifað bréfin.
Bréfin tvö hafa vakið mikla athygli en í þeim eru lýsingar á starfi lögreglunnar og ýmsum atburðum, þar á meðal afleiðingum manneklu og fjársveltis lögreglunnar. Almennt eiga lögreglumenn erfitt með að tjá sig, m.a. vegna þagnarskyldu.
Lögreglumaðurinn sem ritar bréfin kveðst hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með viðbrögð dómsmálaráðherra, að lögreglan geti starfað innan þess peningaramma sem henni er settur. Lögreglumaðurinn segir tilfærslur ekki munu duga til. Þó segir hann jákvætt að málefni lögreglunnar fari fyrir allsherjarnefnd.
Í viðtali við lögreglumanninn í Morgunblaðinu á morgun kemur meðal annars fram hvernig starfið veldur óhjákvæmilegri skerðingu á einkalífi lögreglumanna.
„Ég veit um marga lögreglumenn sem leggja til dæmis ekki í það að fara einir út að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur. Í starfinu þurfum við að hafa alls konar afskipti af fólki sem er auðvitað misvel tekið, sumt af þessu fólki er ekki árennilegt að hitta úti á götu, sérstaklega um miðja nótt. Þetta er auðvitað skerðing á einkalífinu sem ég sé ekki neitt koma á móti á launaseðlinum mínum.“
Þvert á móti þurfa lögregluembættin að skera niður um 10%, sem svarar til launa 50 lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu.
Nánar er rætt við lögreglumanninn í Morgunblaðinu á morgun.