Fyrstu niðurstöður úr sandsílaleiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar gefa til kynna að nýliðun verði ekki minni en hjá 2007 árganginum.
Þann 17. júlí síðastliðinn lauk tveggja vikna leiðangri á Dröfn RE 35. Farið var á 4 svæði; Breiðafjörð, Faxaflóa, Vestmannaeyjar, Vík og Ingólfshöfða. Þetta er fjórða árið sem farið er í slíkan leiðangur en markmiðið er m.a. að meta breytingar í stofnstærð og afla upplýsinga um styrk árganga hjá sandsíli.
Á vef Hafró segir að þessar fyrstu niðurstöður séu háðar óvissu því þær séu eingöngu byggðar á lengdarmælingum á síli en ekki á aldurslesningum. Vöxtur á milli ára sé breytilegur hjá síli og einnig sé mikill breytileiki í lengd eftir aldri innan árs og milli svæða. Á næstu mánuðum fara fram aldursgreiningar á sýnum ársins og frekari úrvinnsla.
„Uppistaðan í sandsílaaflanum í sumar virtist vera 2 ára síli af 2007 árgangi en einnig fannst talsvert af seiðum frá því í vor og fengust þau víðar en í fyrri leiðöngrum. Þetta magn seiða af 2009 árgangi gefur væntingar um að nýliðun verði ekki minni en hjá 2007 árganginum, en ekki er þó hægt að segja til um nýliðun þessa árs með vissu fyrr en á næsta ári. Minna fékkst af eins árs sandsíli en í fyrra og er því 2008 árgangurinn mun minni en 2007 árgangurinn,“ segir á vef Hafró.
Eins og á síðasta ári var talsvert magn sandsílis við Vík í Mýrdal sem er mikil breyting frá fyrstu tveimur árum rannsóknarinnar en þá var þar lítið sem ekkert síli.
Sama má segja um svæðið í kringum Vestmannaeyjar en magnið þar og þéttleikinn er mun minni en við Vík. Þar sáust fleiri árgangar en áður auk þess sem aukning var í fjölda seiða og svæðið sýnir hægfara batamerki.
Í Faxaflóa var magn fullorðinna sandsíla og seiða með mesta móti miðað við undanfarin ár.
Við Ingólfshöfða og á Breiðafirði fengust færri síli en í fyrra og ekki var að sjá batamerki á þeim svæðum. Sérstaklega var áberandi hvað minna var af 2007 árgangi í Breiðafirði en á hinum svæðunum.
Frá Hafrannsóknastofnuninni voru um borð Valur Bogason og Kristján Lilliendahl. Skipstjóri var Ásgeir Guðbjartsson.