Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að ekki eigi að blanda kjararáði inn í eigendastefnu ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Með því muni launakjör forstjóra Landsbankans takmarkast við laun forsætisráðherra og þar af leiðandi vera lægri en hjá Íslandsbanka og Kaupþings. Launin verði því ekki samkeppnishæf.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, kynnti í dag munnlega skýrsla um eigendastefnu ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Um drög er að ræða sem ekki hafa verið kynnt. Í henni kemur fram hvernig ríkið ætlar að standa að rekstri fjármálastsofnana sem það hefur eignast í kjölfar hrunsins.
Tryggvi benti á að kjararáð ætti að halda utan um launaákvarðanir og það verði til þess að einkabankarnir muni raka til sín bestu
starfsmönnunum á meðan Landsbankinn sitji eftir. Hann sagði þetta
takmarka valdsvið stjórna fyrirtækjanna, og spurði í
kjölfarið hvort þetta væri áætlun ríkisstjórnarinnar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, fagnaði því að drögin skuli vera kynnt, enda sé það gríðarlega brýnt að endurreisn bankakerfisins gangi vel fyrir sig. Helgi sagði það æðakerfi efnahagslíkamans og muni endurreisnin ráða gríðarlega miklu um hvernig tekst til að bjarga skuldsettum fyrirtækjum og heimilum frá þroti.
Helgi sagði það ánægjulegt að kröfuhafar tveggja banka vilji taka þá yfir. Hins vegar hafi enginn viljað Landsbankann og sitji ríkisstjórnin uppi með altjón þar. Sýni það hvernig honum var stjórnað.