Starfsmenn sveitarfélaga sem eru félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness hafa samþykkt framlengingu og breytingar á kjarasamningi VA við Launanefnd sveitarfélaga. Mikill meirihluti þeirra sem tóku þátt í kosningunni greiddu atkvæði með samningum þrátt fyrir að innihald samningsins væri afar rýrt, segir á heimsíðu félagsins.
„Flestir vita að sveitarfélögin standa því miður afar illa eftir að hafa hagað sér óskynsamlega í fjármálum á undanförnum árum og á þeirri forsendu var afar erfitt að vænta þess að ná miklum kjarabótum í þessum samningum,“ segir á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness.
„Mikil reiði bæjarstarfsmanna“
Á heimasíðu félagsins segir að mikil reiði ríki hjá æjarstarfsmönnum með þá fyrirætlan bæjaryfirvalda að breyta vinnutilhögun starfsmanna íþróttamannvirkja, skólaliða og annarra starfsmanna Akraneskaupstaðar sem hefur þau áhrif að launakjör áðurnefndra aðila eru að lækka frá 10% upp í tæp 15%.
„Það er grátbroslegt að ganga frá kjarasamningi sem kveður á um hækkun á lægstu töxtum upp á 6.750 kr. á sama tíma og kynntar eru breytingar á vinnutilhögun sömu aðila sem hafa í för með sér skerðingu á mánaðarlaunum frá rúmum 30.000 kr. upp í tæplega 60.000 kr á mánuði,“ segir á vef félagsins.
Verkalýðsfélags Akraness hefur óskað eftir því við bæjaryfirvöld á Akranesi að þau hverfi frá fyrirhuguðum breytingum á vinnutíma skólaliða og starfsmanna íþróttamannvirkja, sem leiða af sér jafnmikla tekjuskerðingu og raun ber vitni. „Það er forkastanlegt að skerða laun sem ekki ná 300.000 kr. eins og áðurnefndar tillögur munu gera. Hér á heimasíðunni hefur birst dæmi um starfsmann sem er með 281.000 kr. í mánaðarlaun sem lækkar um rúmar 30.000 kr. á mánuði miðað við fyrirhugaða breytingu á vinnutilhögun. Þetta er ólíðandi og óviðunandi með öllu. Enda hafa ráðamenn þjóðarinnar og sveitarfélaga talað um að það eigi að slá skjaldborg um þá sem eru með tekjur innan við 300.000 kr. í mánaðarlaun.“
Á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness segir síðan: „Það er sorglegt að horfa uppá það að almennt verkafólk verður fyrir stórkostlegri kjaraskerðingu á sama tíma og ríki, sveitarfélög, tryggingafélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar varpi sínum vanda beint út í samfélagið. Nei, verkafólk þarf að horfa uppá stóraukna greiðslubyrði og hækkun á höfuðstól sinna lána frá 20% og upp í allt að 100% á sama tíma og það er lækkað í launum sem nemur tugum þúsunda á mánuði.“
Pistlinum lýkur með þessum orðum: „Það er ljóst að íslensku verkafólki er að blæða út sökum þess ástands sem nú ríkir í íslensku samfélagi, ástandi sem verkafólk ber ekki nokkra ábyrgð á.“