Stjórnlagaþing kostar rúmar 400 milljónir

Kostnaður við stjórnlagaþings gæti numið rúmum 400 milljónum króna að mati fjármálaráðuneytisins. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra lagði í dag fram á Alþingi, frumvarp um stjórnlagaþing.

Samkvæmt frumvarpinu skal forseti Íslands boða til ráðgefandi stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þingið starfar í einni málstofu og á sérstaklega að taka til umfjöllunar undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar, skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra, hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins, sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds, ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan og lýðræðislega þátttöku almennings. Stjórnlagaþingið getur ákveðið að taka til umfjöllunar fleiri þætti.

Kynjajöfnun

Stjórnlagaþing skal skipað minnst 25 og mest 31 þjóðkjörnum fulltrúa sem kjósa skal samhliða kosningum til sveitarstjórna vorið 2010. Í frumvarpinu eru ákvæði um kynjahlutföll. Fái annað kynið minna en 40% þingsæta skal bæta við allt að 6 sætum að því marki sem þarf til að rétta hlutföllin við. Eru þá teknir inn frambjóðendur af fámennara kyninu
sem næstir koma á röðunarlistanum, þ.e.a.s. þeir næstir koma á eftir þeim 25 sem þegar hefur verið úthlutað sæti.

Starfstíminn 8 til 11 mánuðir

Þingið skal koma saman eigi síðar en 17. júní 2010 og ljúka störfum 17. febrúar 2011. Þingið getur þó sjálft ákveðið að ljúka störfum fyrr og eins er Alþingi heimilt að verða við beiðni stjórnlagaþings um að framlengja starfstíma þess um allt að þrjá mánuði. Stjórnlagaþing skal koma þrisvar sinnum saman á starfstíma sínum, fjórar til sex vikur í senn, samtals í u.þ.b. 15 vikur.

Fjórar fastanefndir stjórnlagaþings

Þingið kýs fimm manna forsætisnefnd og þrjár þriggja manna starfsnefndir sem starfa á milli samkomutíma þess.

1. Nefnd um undirstöður íslenskrar stjórnskipunar, dómstóla og réttarríkið.
2. Nefnd um skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og hlutverk forseta lýðveldisins.
3. Nefnd um kosningamál og þjóðaratkvæðagreiðslur.

Forsætisnefnd stjórnlagaþings skal hafa eftirlit með því að kostnaður við þingið rúmist innan ramma fjárlaga. Ákvarðanir nefndarinnar um útgjöld vegna þingsins sjálfs, svo sem vegna aðstöðu, starfsfólks eða sérfræðiráðgjafar, skulu teknar í samráði við forsætisráðuneyti. Forsætisnefnd skal ráða starfsmenn þingsins og ákveða verksvið þeirra og ráðningarkjör. Jafnframt skal forsætisnefnd ráða sérfræðinga til þess að starfa með nefndum þingsins og staðfesta kostnaðarreikninga frá nefndum vegna sérfræðiaðstoðar og annars sem hún telur nauðsynlegt. Forsætisráðuneyti skal sjá stjórnlagaþingi fyrir starfsaðstöðu og forsætisráðherra setur þinginu starfsreglur.

Við gildistöku laganna skal forsætisráðherra skipa þriggja manna undirbúningsnefnd stjórnlagaþings til að undirbúa stofnun og starfsemi þingsins og skal nefndin ráða sér framkvæmdastjóra.

Erfitt að meta kostnað

Kostnaði við stjórnlagaþing má í stórum dráttum skipta í rekstrarkostnað, húsnæðiskostnað og stofnkostnað.

Til rekstrarkostnaðar teljast laun þingfulltrúa og starfsfólks, ferða-, húsnæðis- og dvalarkostnaður þingfulltrúa sem búa utan höfuðborgarsvæðisins, aðkeypt sérfræðiaðstoð fyrir nefndir þingsins og ýmis annar rekstrarkostnaður.

Undir húsnæðiskostnað fellur húsaleiga, rafmagn, hiti, ræsting og önnur húsumsjón.

Til stofnkostnaðar telst standsetning á húsnæði, kaup og uppsetning á innréttingum, húsgögnum og öðrum húsbúnaði fyrir þingfulltrúa, starfsfólk og gesti, símakerfi, tölvur og annar tæknibúnaður.

Erfitt er að meta kostnað við stjórnlagaþing með nákvæmni. Fyrir utan óvissu um endanlegan fjölda þingfulltrúa og tímalengd þinghalds er óvissa um margt annað sem hefur áhrif á kostnað. Gildir það um nánari tilhögun og fyrirkomulag á þinghaldinu sjálfu, aðbúnað allan og umgjörð, starfsmannafjölda, aðkeypta sérfræðiaðstoð, húsnæðismál og annað sem áhrif hefur á kostnað við þinghaldið og starfrækslu þingsins.

Samkvæmt frumvarpinu skulu fulltrúar á stjórnlagaþingi njóta samsvarandi launa sem samsvara þingfararkaupi alþingismanna. Þingfulltrúar í nefndum þingsins njóta launa allan starfstíma þingsins en aðrir þingfulltrúar taka einungis laun á samkomutímabilum þingsins. Um aðra kostnaðarliði verður að gefa sér forsendur.

Fjármálaráðuneytið miðar við að þingfulltrúar verði 25, starfsmenn þingsins verði 10 og að þinginu verði séð fyrir 1.000 fermetra húsnæði. Ráðuneytið áætlar að ýmis rekstrarkostnaður þingsins fyrir utan húsnæðiskostnað verði 20% af launakostnaði. Annar ófyrirséður kostnaður er áætlaður 5%.

Heildarkostnaður við stjórnlagaþing mun talsvert ráðast af því hversu langt þinghaldið verður. Þingfulltrúar og starfsfólk verða á launum þann tíma. Þó er gert ráð fyrir að starfsmenn þingsins verði 2 mánuðum lengur á launaskrá og að þeir hefji störf áður en þingið kemur saman, auk þess sem gera má ráð fyrir einhverri frágangsvinnu að þinghaldi loknu. Eins er í þessari áætlun gert ráð fyrir að stjórnlagaþinginu verði tryggt húsnæði tveimur mánuðum umfram starfstíma þess.

Miðað við það sem hér hefur verið rakið áætlar fjármálaráðuneytið að mánaðarlegur rekstrarkostnaður stjórnlagaþings geti orðið nálægt 30 m.kr. með húsnæðiskostnaði og stofnkostnaður 38 m.kr. Samkvæmt því yrði heildarkostnaður við 8 mánaða þinghald 312 m.kr. og heildarkostnaður við 11 mánaða þinghald 392 m.kr.

Til viðbótar kostnaði við þinghaldið sjálft, undirbúning þess og rekstur má ætla að kostnaður landskjörstjórnar við að útbúa og dreifa kynningarefni um frambjóðendur og kosningarnar ásamt kostnaði ríkissjóðs við kosningu fulltrúa á stjórnlagaþingið samhliða sveitarstjórnarkosningum geti orðið um 50 m.kr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert