Stjórnlagaþing kostar rúmar 400 milljónir

Kostnaður við stjórn­lagaþings gæti numið rúm­um 400 millj­ón­um króna að mati fjár­málaráðuneyt­is­ins. Jó­hanna Sig­urðardótt­ir, for­sæt­is­ráðherra lagði í dag fram á Alþingi, frum­varp um stjórn­lagaþing.

Sam­kvæmt frum­varp­inu skal for­seti Íslands boða til ráðgef­andi stjórn­lagaþings til að end­ur­skoða stjórn­ar­skrá lýðveld­is­ins Íslands. Þingið starfar í einni mál­stofu og á sér­stak­lega að taka til um­fjöll­un­ar und­ir­stöður ís­lenskr­ar stjórn­skip­un­ar og helstu grunn­hug­tök henn­ar, skip­an lög­gjaf­ar­valds og fram­kvæmd­ar­valds og vald­mörk þeirra, hlut­verk og stöðu for­seta lýðveld­is­ins, sjálf­stæði dóm­stóla og eft­ir­lit þeirra með öðrum hand­höf­um rík­is­valds, ákvæði um kosn­ing­ar og kjör­dæma­skip­an og lýðræðis­lega þátt­töku al­menn­ings. Stjórn­lagaþingið get­ur ákveðið að taka til um­fjöll­un­ar fleiri þætti.

Kynja­jöfn­un

Stjórn­lagaþing skal skipað minnst 25 og mest 31 þjóðkjörn­um full­trúa sem kjósa skal sam­hliða kosn­ing­um til sveit­ar­stjórna vorið 2010. Í frum­varp­inu eru ákvæði um kynja­hlut­föll. Fái annað kynið minna en 40% þing­sæta skal bæta við allt að 6 sæt­um að því marki sem þarf til að rétta hlut­föll­in við. Eru þá tekn­ir inn fram­bjóðend­ur af fá­menn­ara kyn­inu
sem næst­ir koma á röðun­arlist­an­um, þ.e.a.s. þeir næst­ir koma á eft­ir þeim 25 sem þegar hef­ur verið út­hlutað sæti.

Starfs­tím­inn 8 til 11 mánuðir

Þingið skal koma sam­an eigi síðar en 17. júní 2010 og ljúka störf­um 17. fe­brú­ar 2011. Þingið get­ur þó sjálft ákveðið að ljúka störf­um fyrr og eins er Alþingi heim­ilt að verða við beiðni stjórn­lagaþings um að fram­lengja starfs­tíma þess um allt að þrjá mánuði. Stjórn­lagaþing skal koma þris­var sinn­um sam­an á starfs­tíma sín­um, fjór­ar til sex vik­ur í senn, sam­tals í u.þ.b. 15 vik­ur.

Fjór­ar fasta­nefnd­ir stjórn­lagaþings

Þingið kýs fimm manna for­sæt­is­nefnd og þrjár þriggja manna starfs­nefnd­ir sem starfa á milli sam­komu­tíma þess.

1. Nefnd um und­ir­stöður ís­lenskr­ar stjórn­skip­un­ar, dóm­stóla og rétt­ar­ríkið.
2. Nefnd um skip­an lög­gjaf­ar­valds og fram­kvæmd­ar­valds og hlut­verk for­seta lýðveld­is­ins.
3. Nefnd um kosn­inga­mál og þjóðar­at­kvæðagreiðslur.

For­sæt­is­nefnd stjórn­lagaþings skal hafa eft­ir­lit með því að kostnaður við þingið rúm­ist inn­an ramma fjár­laga. Ákvarðanir nefnd­ar­inn­ar um út­gjöld vegna þings­ins sjálfs, svo sem vegna aðstöðu, starfs­fólks eða sér­fræðiráðgjaf­ar, skulu tekn­ar í sam­ráði við for­sæt­is­ráðuneyti. For­sæt­is­nefnd skal ráða starfs­menn þings­ins og ákveða verksvið þeirra og ráðning­ar­kjör. Jafn­framt skal for­sæt­is­nefnd ráða sér­fræðinga til þess að starfa með nefnd­um þings­ins og staðfesta kostnaðar­reikn­inga frá nefnd­um vegna sér­fræðiaðstoðar og ann­ars sem hún tel­ur nauðsyn­legt. For­sæt­is­ráðuneyti skal sjá stjórn­lagaþingi fyr­ir starfsaðstöðu og for­sæt­is­ráðherra set­ur þing­inu starfs­regl­ur.

Við gildis­töku lag­anna skal for­sæt­is­ráðherra skipa þriggja manna und­ir­bún­ings­nefnd stjórn­lagaþings til að und­ir­búa stofn­un og starf­semi þings­ins og skal nefnd­in ráða sér fram­kvæmda­stjóra.

Erfitt að meta kostnað

Kostnaði við stjórn­lagaþing má í stór­um drátt­um skipta í rekstr­ar­kostnað, hús­næðis­kostnað og stofn­kostnað.

Til rekstr­ar­kostnaðar telj­ast laun þing­full­trúa og starfs­fólks, ferða-, hús­næðis- og dval­ar­kostnaður þing­full­trúa sem búa utan höfuðborg­ar­svæðis­ins, aðkeypt sér­fræðiaðstoð fyr­ir nefnd­ir þings­ins og ýmis ann­ar rekstr­ar­kostnaður.

Und­ir hús­næðis­kostnað fell­ur húsa­leiga, raf­magn, hiti, ræst­ing og önn­ur hús­um­sjón.

Til stofn­kostnaðar telst stand­setn­ing á hús­næði, kaup og upp­setn­ing á inn­rétt­ing­um, hús­gögn­um og öðrum hús­búnaði fyr­ir þing­full­trúa, starfs­fólk og gesti, síma­kerfi, tölv­ur og ann­ar tækni­búnaður.

Erfitt er að meta kostnað við stjórn­lagaþing með ná­kvæmni. Fyr­ir utan óvissu um end­an­leg­an fjölda þing­full­trúa og tíma­lengd þing­halds er óvissa um margt annað sem hef­ur áhrif á kostnað. Gild­ir það um nán­ari til­hög­un og fyr­ir­komu­lag á þing­hald­inu sjálfu, aðbúnað all­an og um­gjörð, starfs­manna­fjölda, aðkeypta sér­fræðiaðstoð, hús­næðismál og annað sem áhrif hef­ur á kostnað við þing­haldið og starf­rækslu þings­ins.

Sam­kvæmt frum­varp­inu skulu full­trú­ar á stjórn­lagaþingi njóta sam­svar­andi launa sem sam­svara þing­far­ar­kaupi alþing­is­manna. Þing­full­trú­ar í nefnd­um þings­ins njóta launa all­an starfs­tíma þings­ins en aðrir þing­full­trú­ar taka ein­ung­is laun á sam­komu­tíma­bil­um þings­ins. Um aðra kostnaðarliði verður að gefa sér for­send­ur.

Fjár­málaráðuneytið miðar við að þing­full­trú­ar verði 25, starfs­menn þings­ins verði 10 og að þing­inu verði séð fyr­ir 1.000 fer­metra hús­næði. Ráðuneytið áætl­ar að ýmis rekstr­ar­kostnaður þings­ins fyr­ir utan hús­næðis­kostnað verði 20% af launa­kostnaði. Ann­ar ófyr­ir­séður kostnaður er áætlaður 5%.

Heild­ar­kostnaður við stjórn­lagaþing mun tals­vert ráðast af því hversu langt þing­haldið verður. Þing­full­trú­ar og starfs­fólk verða á laun­um þann tíma. Þó er gert ráð fyr­ir að starfs­menn þings­ins verði 2 mánuðum leng­ur á launa­skrá og að þeir hefji störf áður en þingið kem­ur sam­an, auk þess sem gera má ráð fyr­ir ein­hverri frá­gangs­vinnu að þing­haldi loknu. Eins er í þess­ari áætl­un gert ráð fyr­ir að stjórn­lagaþing­inu verði tryggt hús­næði tveim­ur mánuðum um­fram starfs­tíma þess.

Miðað við það sem hér hef­ur verið rakið áætl­ar fjár­málaráðuneytið að mánaðarleg­ur rekstr­ar­kostnaður stjórn­lagaþings geti orðið ná­lægt 30 m.kr. með hús­næðis­kostnaði og stofn­kostnaður 38 m.kr. Sam­kvæmt því yrði heild­ar­kostnaður við 8 mánaða þing­hald 312 m.kr. og heild­ar­kostnaður við 11 mánaða þing­hald 392 m.kr.

Til viðbót­ar kostnaði við þing­haldið sjálft, und­ir­bún­ing þess og rekst­ur má ætla að kostnaður lands­kjör­stjórn­ar við að út­búa og dreifa kynn­ing­ar­efni um fram­bjóðend­ur og kosn­ing­arn­ar ásamt kostnaði rík­is­sjóðs við kosn­ingu full­trúa á stjórn­lagaþingið sam­hliða sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um geti orðið um 50 m.kr.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka