Fréttaskýring: Umsókn Íslands um ESB bíður afgreiðslu

Össur Skarphéðinsson, utanríksiráðherra, afhendir Carl Bildt,utanríkisráðherra Svíþjóðar aðildarumsókn Íslands.
Össur Skarphéðinsson, utanríksiráðherra, afhendir Carl Bildt,utanríkisráðherra Svíþjóðar aðildarumsókn Íslands. BOB STRONG

Til að næsta skref umsóknarferlisins hefjist þurfa fundarmenn, utanríkisráðherrar ríkjanna, að samþykkja að vísa umsókninni til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Málefni Íslands er undir dagskrárliðnum „stækkun“, en undir hann falla einnig umsóknir Króatíu og Albaníu. Svíar sitja nú í forsæti Evrópusambandsins og lýstu sænskir ráðamenn yfir eindregnum stuðningi við aðildarumsókn Íslands á fundi með Össuri í gær. Í ljósi þess að fundarstjórn er í höndum Svía binda íslensk stjórnvöld vonir við að umsóknin verði rædd og afgreidd á fundinum og vísað áfram í ferlinu. Að öðrum kosti frestast ákvörðunin, í það minnsta til næsta fundar.

Verði málið rætt á mánudaginn veltur niðurstaða fundarins á stuðningi fulltrúa ESB-ríkjanna. Um þetta ríkir óvissa, og þó Össur Skarphéðinsson segi yfirgnæfandi meirihluta styðja við aðild Íslands ber að merkja að utanríkisráðherra Hollands sagði umsóknina háða Icesave-málinu.

Mikill undirbúningur í vændum

Ljóst er að þótt umsóknarferlið sé ekki undir stjórn Íslendinga þá dugir ekki að sitja og bíða. „Mikilvægasti hluti samningaviðræðnanna fer fram á milli dagsins í dag og þangað til leiðtogafundurinn ákveður að hefja skuli viðræður,“ segir Aðalsteinn Leifsson stjórnmálafræðingur. Lykilatriði sé að kynna öllum aðildarríkjunum sjónarmið Íslands, ekki bara þeim stærstu. Ráðuneytin þurfi nú að vinna dag og nótt til að auka stuðning við hagsmuni okkar. „Frá upphafi þarf að vera skýrt af hálfu Íslands á hvað við leggjum áherslu. Við getum ekki beðið þangað til formlegar aðildarviðræður byrja. Þá verður þegar búið að móta þann farveg sem viðræðurnar fara í.“

Fyrstu skref í átt að ESB

  • Evrópuríki leggur inn umsókn um inngöngu í Evrópusambandið hjá ráðherraráði þess.
  • Ráðherraráðið biður framkvæmdastjórn ESB að semja álit um umsóknina.
  • Framkvæmdastjórnin skilar áliti sínu til ráðherraráðsins.
  • Ráðherraráðið ákveður (með samhljóða samþykki) hvort hefja beri aðildarviðræður við umsóknarríkið.
  • Aðildarviðræður hefjast milli aðildarríkja ESB annars vegar og umsóknarríkisins hins vegar.
  • Framkvæmdastjórnin semur tillögu að samningsmarkmiðum ESB sem ráðherraráðið samþykkir (oft með breytingum) með samhljóða samþykki.
  • Aðildarviðræðum milli sambandsins og umsóknarríkisins lýkur með drögum að samningi.

Heimild: Inni eða úti? eftir Auðun Arnórsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert