Fálmkenndar breytingar

Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg
Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg Jim Smart

Minnihluti allsherjarnefndar Alþingis segir tillögur um fyrirhugaðar breytingar verkefnum innan Stjórnarráðsins á margan hátt fálmkenndar og tilviljunarkenndar. Breytingarnar séu ekki nægilega undirbúnar, greinilegt sé að ekki hafi verið haft samráð við þær stofnanir sem málið varðar og ekki sé að finna neinar tillögur sem stuðla að hagræðingu og sparnaði, eins og ríkisstjórnin segist stefna að.

Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands var afgreitt út úr allsherjarnefnd í gær, á síðasta degi fyrir þinghlé.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á heitum ráðuneyta og tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands, í framhaldi af samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. maí 2009.

Samgönguráðuneytið mun heita samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, menntamálaráðuneytið verður ráðuneyti mennta- og menningarmála, viðskiptaráðuneyti verður efnahags- og viðskiptaráðuneyti og dóms- og kirkjumálaráðuneytið verður dómsmála- og mannréttindaráðuneyti.

Einfaldari stjórnsýsla og sparnaður

Markmið breytinganna er að einfalda stjórnsýslu, nýta betur fjármuni ríkisins en bæta um leið þjónustu þess við atvinnulíf og almenning, efla fagráðuneytin og gefa forsætisráðuneytinu meira svigrúm til að sinna stefnumótun og samhæfingu milli ráðuneyta.

Stefnt er að því að innleiða breytingarnar í áföngum á yfirstandandi kjörtímabili. Ætlað er að fyrsti áfangi breytinganna taki gildi 1. september 2009.

Breytingarnar lúta flestar að flutningi verkefna til efnahags- og viðskiptaráðuneytis. Er þar um að ræða flutning frá forsætisráðuneyti á málefnum Seðlabanka Íslands og Hagstofu Íslands og flutning frá fjármálaráðuneyti á málefnum er varða ársreikninga, endurskoðendur og bókhald. Jafnframt er bætt við ákvæði í lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð þess efnis að við stofnunina skuli starfrækja sjálfstæða rannsóknareiningu sem skuli fylgjast með afkomu þjóðarbúsins, semja þjóðhagsspár og áætlanir og birta opinberlega.

Þá er í frumvarpinu mælt fyrir um flutning verkefna til dómsmála- og mannréttindaráðuneytis. Er þar um að ræða flutning á málefnum sveitarstjórnarkosninga frá samgönguráðuneyti, flutning á málefnum fasteignamats og fasteignaskráningu frá fjármálaráðuneyti og flutning neytendamála frá viðskiptaráðuneyti.

Einnig er í frumvarpinu mælt fyrir um flutning á eignarhaldi ríkisins í opinberum hlutafélögum til fjármálaráðuneytis frá öðrum ráðuneytum.

Loks er í frumvarpinu mælt fyrir um flutning á málefnum Grænlandssjóðs frá forsætisráðuneyti til mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Minnihlutinn leggst gegn afgreiðslu frumvarpsins

Minnihluti allsherjarnefndar leggst gegn því að frumvarpið verði afgreitt sem lög frá Alþingi. Minnihlutinn segir að þær breytingar sem felast í frumvarpinu séu ekki nægilega undirbúnar. Greinilegt sé að ekki hafi verið haft samráð við þær stofnanir sem málið varðar og ekkert bendi til þess að málið hafi á nokkurn hátt verið unnið í samstarfi við samtök starfsmanna.

Þá virðist breytingarnar á margan hátt fálmkenndar og tilviljunarkenndar og sárlega skorti þá heildarsýn á skipulag og tilfærslu innan verkefna Stjórnarráðsins sem boðaðar hafa verið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þá sé ekki að finna neinar tillögur sem stuðla að hagræðingu og sparnaði, eins og ríkisstjórnin segist stefna að.

Minnihlutinn segir vandkvæðum bundið að taka afstöðu til einstakra tillagna frumvarpsins þar sem óljóst sé hvernig þær muni falla að frekari breytingum sem í einhverjum tilvikum munu jafnvel birtast í nýju lagafrumvarpi strax í haust.

Minnihlutinn telur að skynsamlegra hefði verið að ríkisstjórnin legði fram heildstæðar tillögur í þessum efnum þannig að Alþingi hefði möguleika á því að taka afstöðu til þeirra í eðlilegu samhengi. Minnihluti allsherjarnefndar segir að ríkisstjórnin hafi hins vegar valið leið smáskammtalækninga.

Undarlegt að færa forræði efnahagsmála

Minnihlutinn telur óeðlilegt að forræði á sviði efnahagsmála verði fært frá forsætisráðuneyti með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Efnahagsmálin hafi um langt skeið verið mikilvægasta viðfangsefni forsætisráðuneytisins. Eðli málsins samkvæmt snerti þau mál svið allra annarra ráðuneyta að meira eða minna leyti. Verkstjórnarhlutverk forsætisráðherra sé því hvað veigamest, einmitt á því sviði. Tillögur um breytingar í þessum efnum séu sérstaklega undarlegar við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu. Öllum megi vera ljóst að einmitt nú séu efnahagsmálin brýnasta og alvarlegasta viðfangsefni stjórnvalda og því skjóti skökku við að færa forræði þess málaflokks frá forsætisráðherra.

Álit meirihluta allsherjarnefndar

Álit minnihluta allsherjarnefndar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert