Fundu örvarodd frá landnámsöld

Hringsdalur
Hringsdalur

Örvaroddur frá járnöld hefur komið í ljós við fornleifauppgröft í Hringsdal í Arnarfirði. Spjót voru algengustu vopn Íslendinga í fornöld, en örvaroddar eru afar fágætir hér á landi. Aðeins hafa örvar fundist í tveimur öðrum kumlum, þ.e. á Austarahóli í Fljótum, og á bökkum Sogsins, þegar virkjunin var gerð.

Enn finnast vopn á kumlateignum í Hringsdal í Arnarfirði. Fornleifafræðingar hafa haldið áfram rannsóknum á heiðnum gröfum sem fundust af tilviljun í Hringsdal árið 2006. Þá fundust 2 grafir, en nú eru alls 5 grafir komnar í ljós.

Að sögn Adolfs Friðrikssonar fornleifafræðings, er heildarsvipur grafreitsins þar smátt og smátt að koma fram, en á síðustu öldum hefur ljós skeljasandur  sem safnast hefur upp á sjávarbökkunum í Hringsdal, fært minjastaðinn í kaf og stuðlað þannig að varðveislu kumlanna. 
 
Í sumar fannst örvaroddur og bætist því enn í vopnasafnið frá Hringsdal. Áður höfðu fundist sverð, skjöldur, spjót og öxi. Spjót voru algengustu vopn Íslendinga í fornöld, en að sögn Adolfs eru örvaroddar afar fágætir hér á landi. Aðeins hafa örvar fundist í tveimur öðrum kumlum, þ.e. á Austarahóli í Fljótum, og á bökkum Sogsins, þegar virkjunin var gerð. Verður það að teljast lítið í ljósi þess að til þessa hafa fundist 330 grafir úr heiðni.

Örvaroddurinn er brotinn. Skarð er í blaðið og tanginn, sem gekk upp í skaftið, er horfinn. Ekki er hægt að greina aldur þessa grips, en líklegt er að hann sé frá sama tíma og önnur vopn sem fundist hafa í Hringsdal, þ.e. frá 10. öld eða svo.

Samkvæmt verkáætlun lýkur rannsóknum væntanlega sumarið 2010. Gert er ráð fyrir að kumlateigurinn verði gerður aðgengilegur fyrir ferðamenn á næsta ári, sett upp skilti með fróðleik og göngustígar, enda heppilegur áningarstaður milli Bíldudals og Selárdals. Rannsóknin er samstarfsverkefni Arnfirðingafélagsins og Fornleifastofnunar Íslands og nýtur styrks frá Alþingi.

Örvaroddur frá járnöld. Oddurinn hefur verið um 12 sm á …
Örvaroddur frá járnöld. Oddurinn hefur verið um 12 sm á lengd, en tanginn er brotinn af og skarð í blaðið.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert