Háloftakuldar og haglél

mbl.is/Þorgeir Baldursson

Alhvítt varð um stund í Víðdal en mikið haglél gerði í fáar mínútur um nónbil. Hiti var þá tæpar um 8°C.

Þorgeir Baldursson, ljósmyndari tók meðfylgjandi myndir að Dæli í Víðidal í dag. Hann segir að mikil og dökk ský hafi hrannast upp áður en haglél buldi. Það gekk yfir á 5 til 6 mínútum. Rigning fylgdi í kjölfarið en síðan birti til og sól skein í heiði.

Líklegt er að rekja megi veðurfarið til óvenjumikilla háloftakulda sem nú eru yfir landinu, þó ekki hafi fengist skýringar á þeim.

Veðrið í júlí hefur verið sérstakt, þurrt og sólríkt en víða hefur mælst næturfrost á Suður og Austurlandi. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur fjallar um júlífrost á vefsíðu sinni.

„Liðna nótt frysti aftur í Þykkvabænum og fer maður að verða hræddur um kartöfluræktina þar þetta sumarið. Mesta frostið í nótt var í Möðrudal - 2,6°C skv. yfirliti á forsíðu á vef Veðurstofunnar. Á Eyrarbakka fór niður í -2,2°C.  Þar hefur verið mælt samfelld frá 1923 og á þeim tíma hefur aldrei fyrr mælst frost í júlí á þeirri veðurstöð. Á Hæli sýnist mér einnig að fryst hafi í skamma stund rétt eftir miðnætti.  Hafi svo verið er það einnig þar sem frost mælist í fyrsta skipti í júlí en mælt hefur verið samfellt frá 1929.“ skrifar Einar Sveinbjörnsson á veðurvef sinn.

Þá segir að í nótt hafi einnig fryst sums staðar austanlands, svo sem á Egilsstaðaflugvelli og athygli veki að lágmarkshitinn á Fáskrúðsfirði var -2,3°C.

Vefur Einars Sveinbjörnssonar

mbl.is/Þorgeir Baldursson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert