„Ég heyrði rifbeinin brotna, þetta gerðist það hægt að ég var eins og í pressu. Hef aldrei nokkurn tímann fundið annan eins sársauka og hef þó lent í ýmsu gegnum ævina,“ segir Sigurður Baldursson, 54 ára ferðaþjónustubóndi með meiru, er hann lýsir því þegar hann klemmdist á milli sex tonna fjallatrukks og farangurskerru á Gæsavatnaleið sl. sunnudag.
Var hann þar ásamt leiðsögumanni á ferð með hóp franskra ferðamanna. Fór Sigurður aftur fyrir trukkinn til að gera við kerruna þegar trukkurinn rann af stað aftur á bak og klemmdi eiganda sinn fastan.
Sigurður braut í sér ein átta rifbein, marðist mjög illa á öxl, síðu og hendi, lungað lagðist saman öðrum megin og hann má í raun teljast heppinn að hafa ekki slasast meira miðað við aðstæður. Var hann fluttur suður með þyrlu Landhelgisgæslunnar og lá í tvo daga á gjörgæsludeild. „Karl faðir minn hefur sagt að það hafi góðar vættir haldið hlífiskildi yfir mér,“ sagði Sigurður við Morgunblaðið í gær.
Þegar óhappið varð á sunnudag hafði Sigurður farið með Frakkana vítt og breitt um hálendið; um Hveravelli, Kerlingarfjöll, Mývatnssveit, Öskju og upp að Vatnajökli.
„Við vorum að koma til baka frá Vatnajökli á Gæsavatnaleið þegar ég tók eftir því í hliðarspeglinum að kerran var utar í vegkantinum en hún átti að sér að vera. Ég keyrði mjög hægt, enda vegurinn erfiður þarna, en þegar ég sló af þá drapst á bílnum. Ég svissaði bara af, stökk út og hljóp aftur fyrir bílinn til að sjá hvað var að, þá sá ég að beislið á kerrunni hafði brotnað öðrum megin,“ segir Sigurður, sem ákvað að gera við beislið til bráðabirgða, þar til komið yrði niður í Gæsavatnaskála, sem var skammt framundan. Ferðamennirnir voru þá allir komnir út úr trukknum til að aðstoða Sigurð.
„Þegar ég er búinn að brasa við þetta í svona hálftíma finn ég að bíllinn, sem var í örlitlum halla, fer af stað og þrýstir mér að kerrunni og klemmir mig fastan. Þetta var hrikalegur sársauki. Ég náði að öskra að einhver yrði að færa bílinn en síðan leið yfir mig,“ segir Sigurður sem rankaði við sér á mölinni eftir skamma stund. Hann vissi strax upp á sig sökina, að hafa gleymt að setja trukkinn í handbremsu, og var „brjálaður“ út í sjálfan sig fyrir þá yfirsjón, hann sem alltaf segist hafa reynt að sýna mikla fyrirhyggju í öllu.