Hundruð flytjast til Noregs

Oddgeir Þorgeirsson og Guðbjörg Þóra Guðmundsdóttir eru á leið til …
Oddgeir Þorgeirsson og Guðbjörg Þóra Guðmundsdóttir eru á leið til Noregs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hundruð Íslendinga hafa á síðustu mánuðum flust til Noregs og margir eru á förum. „Mér kæmi ekki á óvart að þegar árið verður gert upp hafi 1.000 Íslendingar flutt hingað,“ segir sr. Arna Grétarsdóttir, prestur íslenska safnaðarins í Noregi.

Hún segir marga þá sem utan flytja í raun ekki eiga neinn annan kost í stöðunni og aðlögun fólks að nýju og framandi samfélagi geti því orðið erfið. Almennt farnist Íslendingum þó vel í Noregi.

Ekki um neitt að velja

„Búslóðin er komin í gám og við förum utan strax eftir mánaðamót,“ segir Oddgeir Þorgeirsson pípulagningamaður. Sl. haust var svo komið að sú vinna sem hann hafði hér heima var orðin það lítil, að sjálfhætt var. Síðan þá hefur hann starfað í Noregi og þá verið ytra nokkrar vikur í senn. En nú tekur fjölskyldan sig upp og sest að í bænum Gjerdrum, skammt utan við Osló.
Oddgeir og Guðbjörg Þóra Guðmundsdóttir, eiginkona hans, hafa búið á Selfossi. „Það er sorglegt að þurfa að yfirgefa landið, en það er ekki um neitt annað að velja. Öll byggingarstarfsemi hér heima er hrunin og atvinna takmörkuð. Þá hafa allar afborganir af lánum stórhækkað, mánaðarlegar afborganir okkar af húsnæði hækkuðu úr 130 þús. um nærri því helming. Sama gildir um bílalánið sem er í erlendri mynt.“

Í Gjerdrum, sem er 5.000 manna bær, hafa til skamms tíma búið þrjár íslenskar fjölskyldur. Nú er fyrirsjáanlegt að þeim fjölgi til muna. „Mér skilst að búið sé að ráða íslenskan túlk í barnaskólann sem er frábært. Það hjálpar strákunum okkar, fimm og sjö ára, við námið.“

Ítarlega er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert