Þúsundir skáta frá yfir 50 löndum hafa nú reist sér tjaldbúðir við Úlfljótsvatn, þar sem þeir hittast og deila reynslu sinni á Roverway skátamótinu á Íslandi. Skátarnir hafa í vikunni farið víða um landið í leiðöngrum en í gær tóku flokkarnir einn af öðrum að tínast í tjaldbúðirnar.
Fyrstu skátarnir sem skiluðu sér að Úlfljótsvatni var hópur göngugarpar nýkomnum af Hellisheiðinni, þar sem þau hafa í 5 daga tekið þátt í einum leiðangranna sem voru í boði. Hin ítalska Marta Gennari er einn skátanna í leiðangrinum, en með henni í för voru 48 skátar frá Katalóníu, Írlandi og Grikklandi.
Skátarnir í hópnum hafa skoðað sig um á jarðhitasvæði Hengilsvæðisins, baðað sig í heitum laugum í Reykjadal og Innstadal og skoðað jarðmyndanir í Hengli og Skarðsmýrarfjalli. Að sögn Mörtu var leiðangurinn alveg frábær. „Veðrið hefur verið yndislegt, með mér í leiðangri voru skemmtilegir skátar sem hafa tengst sterkum vináttuböndum og svo er landslagið svo fallegt hér, hraunið stórbrotið og fjöllin ykkar eru svo lítil og sæt,“ segir Marta brosandi. Einhverjir vildu kannski mótmæla þessari síðustu staðhæfingu en þá er rétt er að hafa í huga að Marta býr í Piemonte, umkringd ítölsku Ölpunum.
Vinna með fólki og hjálpa fólki
Þegar Marta er ekki upp í fjöllum í gönguskónum setur hún upp takkaskóna og spilar fótbolta. Hún hlýtur að teljast nokkuð góð því fljótlega þarf hún að velja á milli þriggja félaga sem vilja nýta hæfileika hennar. Hún segist halda með Juventus í ítölsku deildinni, sem varla er tilviljun því Juventus F.C. er í Piemonte, heimabæ Mörtu. Í framtíðinni langar Mörtu að starfa sem læknir eða við hjúkrunarstörf en ekki er ólíklegt að reynslan úr skátunum hafi haft áhrif á það starfsval. „Mig langar, eins og í skátunum, til að vinna með fólki og hjálpa fólki,“ segir hún.
Auk margskonar ævintýramennsku og útivistarþjálfunar víða um land hafa skátarnir boðið fram aðstoð sýna í sjálfboðaliðastarfi. Skátarnir sem dvöldu á Hellisheiðinni notaði t.d. heilan dag í hreinsunarstarf, auk þess sem þeir máluðu einn gömlu skálanna sem íslenskir skátar eiga við Skarðsmýrarfjall. Þeir skilja því eftir sig ýmis jákvæð ummerki þegar þeir yfirgefa landið um miðja næstu viku og halda aftur heim á leið.