Í uppgjörssamningi á milli breskra og íslenskra stjórnvalda er fjallað um greiðslur til breska innstæðutryggingasjóðsins vegna kostnaðar sem hann hefur orðið fyrir. Sagt hefur verið að þar sé tveggja milljarða króna lögfræðikostnaði Breta í Icesave-málinu velt yfir á Íslendinga.
„Hið rétta er að íslensk stjórnvöld féllust sl. haust á það að þeim bæri að greiða innstæðueigendum í Bretlandi og Hollandi hluta af innstæðum þeirra [...]. Hluti af skuldbindingum innstæðutryggingasjóða samkvæmt reglugerðinni er að sjá um útborganir og samskipti við innstæðueigendur,“ sagði í yfirlýsingu fjármálaráðherra vegna málsins í gær.
Í samningnum, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, segir í grein 3.1 í þýðingu blaðamanns: „Breski innstæðutryggingasjóðurinn má leggja fram (fyrir hönd þess íslenska) eina beiðni um útgreiðslu að andvirði tíu milljón pund, með hliðsjón af þeim kostnaði sem stofnað hefur verið til, eða stofnað verður til, af breska innstæðutryggingasjóðnum, við meðferð og útgreiðslu á bótum til innstæðueigenda hjá breskum útibúum og umsjón með tengdum málum, þar á meðal, án takmarkana, endurheimtum og hvers konar deilum sem geta hlotist af þeim.“
Þarna er vísað til kostnaðar við að halda utan um Icesave eftir bankahrun, en ekki vegna gerðar Icesave-samninga. Þó er tekið fram að engar takmarkanir séu á því í hvað megi nota fjármunina.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að sér finnist ákvæðið niðurlægjandi. Það undirstriki að viðsemjendur Íslands fái allt og eftirgjöfin sé algjör.
„Ég er leiður á því að heyra fjármálaráðherra vísa til þess að fyrri stjórnvöld hafi verið búin að skuldbinda ríkið. Því ef eitthvað hefur komið í ljós í þessari vinnu á Alþingi, þá er það einmitt að ekki hafði tekist skuldbindandi samkomulag um eitt eða neitt í haust,“ segir Bjarni.
Í yfirlýsingu fjármálaráðherra í gær sagði að talið hefði verið heppilegra að semja um hlutdeild Íslendinga með fastri fjárhæð. Þá muni allur viðbótarkostnaður falla á sjóðina í Bretlandi og Hollandi.
Engu að síður er ákvæði 3.2 í uppgjörssamningnum við Breta svohljóðandi, í þýðingu blaðamanns: „Afgangnum af öllum útborgunum vegna kostnaðar breska innstæðutryggingasjóðsins má hann halda eftir fyrir sjálfan sig.“
Fari svo að kostnaðurinn verði níu milljónir punda hefur breski sjóðurinn því fengið milljón pund að gjöf frá þeim íslenska.