Nýja Kaupþing býður skuldaaðlögun

Nýja Kaupþing hefur útfært nýja lausn fyrir þá viðskiptavini, sem búa við þær aðstæður að íbúðalán er bæði hærra en markaðsverð fasteignar og hærra en svo að viðkomandi standi undir því.

Hermann Björnsson, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Nýja Kaupþings, segir að frysting erlendra lána renni fljótlega út og því hafi bankinn talið að nauðsynlegt væri að hafa slík úrræði til reiðu.

Skuldaaðlögunin felur það í sér að lántaki fer í nýtt greiðslumat hjá bankanum og greiðslubyrði hans aðlöguð hans aðstæðum. „Gamla láninu er breytt í nýtt verðtryggt lán til allt að fjörutíu ára. Þetta lán er að lágmarki 80% af markaðsvirði fasteignarinnar núna, en gæti verið hærra, allt eftir aðstæðum hvers og eins. Því sem eftir stendur af gamla láninu er breytt í biðlán án vaxta og verðbóta með einum gjalddaga eftir þrjú ár,“ segir Hermann. Þá er gefið út tryggingabréf sem nær upp í 110% af markaðsvirði eignarinnar.

Leggur Hermann áherslu á að með úrræðinu sé reynt að koma til móts við viðskiptavini bankans sem eigi í greiðsluerfiðleikum. Hins vegar sé alltaf hagkvæmara fyrir þá sem geta staðið undir lánum sínum nú að halda áfram afborgunum.

Þegar þrjú ár eru liðin fer fram nýtt greiðslumat á viðskiptavininum og það metið hvort hann geti þá staðið undir greiðslum af biðláninu. Geti hann það ekki segir Hermann að þá sé hægt að framlengja það eða grípa til annarra ráðstafanna.

„Það veit enginn hver staðan verður eftir þrjú ár og meginatriðið er að koma fólki til aðstoðar núna.“ Í tilvikum þeirra, sem hafa nú erlend lán yrði erlenda láninu breytt í krónulán, að sögn Hermanns.

Skýringardæmi

Á fasteign er áhvílandi 27 milljóna króna lán, en fasteignin er nú virði um 20 milljóna. Lánið er því í 135% veðhlutfalli og eigandinn ræður ekki við greiðslubyrði. Að því gefnu að eigandinn geti staðið undir 16 milljóna króna láni (80% af markaðsvirði fasteignarinnar) er gefið út nýtt lán upp á 16 milljónir. Bankinn breytir 11 milljónum í biðlán til þriggja ára og svo er útbúið tryggingabréf að upphæð 6 milljóna króna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert