Sveitarsjóðir í athugun

Ekki fæst uppgefið hvaða 10-15 sveitarfélög það eru sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hyggst taka til sérstakrar skoðunar á næstunni. Rekstrarniðurstaða sveitarsjóða á landinu var neikvæð um 19,3 milljarða króna á síðasta ári, en þar af nam tap sjö þeirra yfir milljarði króna.

Fram kom í svari samgönguráðherra á Alþingi í vikunni að eftirlitsnefndin hefur metið þörfina fyrir frekari aðgerðir. „Samkvæmt frumathugun á fjárhagsáætlunum og ársreikningum verða 10-15 sveitarfélög tekin til frekari skoðunar,“ segir í svari ráðherra.

Að sögn Jóhannesar Tómassonar, upplýsingafulltrúa samgönguráðuneytisins, er nú beðið eftir frekari upplýsingum áður en ákvörðun verður tekin um hver þessara 10-15 sveitarfélaga verði undir eftirliti. Ekki sé víst að ráðist verði í aðgerðir nema hjá fáum þeirra.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir fyrirhugað eftirlit ekki koma á óvart. „Ég hef oft sagt að eftirlitsnefndin mun í rauninni þurfa að hafa afskipti af flestum sveitarfélögum landsins. Í lögunum er skilgreiningin sú að ef sveitarfélag er með taprekstur beri eftirlitsnefndinni að grafast fyrir um ástæðurnar fyrir því.“

Ákveði nefndin að grípa til eftirlits felur það í sér að gerður er aðgerðarsamningur við sveitarfélagið. Halldór segir þó ekki fjárráð tekin af viðkomandi sveitarstjórn, en aðeins séu tvö dæmi um að slíkt hafi verið gert hér á landi. Áður en til þess komi séu ýmis úrræði. „T.d. ákvæði í sveitarstjórnarlögunum um að veita megi sveitarfélagi heimild til að leggja aukaálag ofan á útsvar og skatta. Eins er heimilt að veita sveitarfélagi styrk eða lán úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að koma fjárhag þess á réttan kjöl.“

Sé hins vegar útlit fyrir að ekki rætist úr fjármálum sveitarfélagsins til langs tíma er skv. lögum heimilt að svipta sveitarstjórn fjárforræði og skipa því fjárhaldsstjórn. „Við erum þó alls ekki á því stigi. Núna erum við bara að fást við afleiðingar bankahruns og kreppu og ég veit ekki um neina sveitarstjórn sem ekki er tilbúin að vinna sig út úr vandanum,“ segir Halldór.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert