Atli Gíslason þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs skorar á Franek Rozwadowski, sendifulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi að leggja á borð alla skilmála og öll skilyrði fyrir því að Ísland fái lán frá sjóðnum.
Atli sagðist í samtali við RÚV vera farinn að halda að þjóðin væri aftur komin í fullveldis- og sjálfstæðisbaráttu. Atli vísaði til ummæla Rozwadowski þess efnis að efnahagsáætlun Íslands, sem AGS stýrir, verði ekki tekin til endurskoðunar fyrr en gengið hefur verið frá lánum frá Norðurlöndunum. Undirritun lánasamninganna dugi ekki.
Stjórnvöld hafa sagt að lánið frá Norðurlöndunum verði ekki afgreitt fyrr en Icesave-samningurinn verði í höfn. Atli Gíslason sagðist í samtali við RÚV ekki hafa tekið ákvörðun um það hvort hann greiði Icesave-samningnum sitt atkvæði.