Um miðnætti í nótt barst lögreglunni á Vestfjörðum tilkynning þess efnis að maður gengi berserksgang á Barðaströnd og væri hann vopnaður skotvopni. Lögreglan á Vestfjörðum óskaði eftir aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra sem naut aðstoðar þyrlu Landhelgisgæslunnar við að komast á vettvang. Jafnframt fóru lögreglumenn frá Patreksfirði og Ísafirði á staðinn.
Vel gekk að tryggja ástandið á vettvangi og gistir maðurinn nú í fangageymslu lögreglunnar á Vestfjörðum en hann reyndist ölvaður, að sögn lögreglunnar á Ísafirði.