Fréttaskýring: Blátt bann við akstri og áfengisneyslu

Núverandi umferðarlög veita svigrúm sem sumir nýta sér til að …
Núverandi umferðarlög veita svigrúm sem sumir nýta sér til að búa til sínar eigin skilgreiningar á því að einhver áfengisneysla sé í lagi. mbl.is/Árni Sæberg

Í drögum nýrra umferðarlaga er lagt til að leyfilegt hámarksmagn vínanda í blóði ökumanns verði lækkað úr 0,5‰ í 0,2‰. Með þeirri breytingu verður það afdráttarlaus stefna yfirvalda að áfengi og akstur fari ekki saman.

Allir sem Morgunblaðið ræddi við voru sammála um að lækkun refsimarka væri af hinu góða. Ölvunarakstur er nú önnur algengasta orsök banaslysa í umferðinni á Íslandi, 16%, á eftir hraðakstri sem er 19%.

„Andi laganna bannar alla áfengisneyslu fyrir akstur, en svo eru refsimörk og þau eru 0,5‰. Það þýðir þó ekki að menn megi keyra með áfengi að 0,5‰ í blóðinu,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. „Við [lögreglan ] myndum fagna því að þessi vikmörk sem fólk telur sig hafa verði fjarlægð.“

Í flestum ríkjum Vestur-Evrópu er miðað við 0,5‰ sem leyfilegt hámarksmagn áfengis í blóði. Í viðauka með frumvarpinu er þess getið að aðeins tvö ríki V-Evrópu hafi farið með refsimörkin niður í 0,2‰, Svíþjóð árið 1990 og Noregur árið 2000. En rannsókn sænskra umferðaryfirvalda bendir til þess að umferðarslysum hafi fækkað í kjölfarið

Ágúst Mogensen, forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa, var einn þeirra sem leitað var álits hjá við gerð laganna. Ágúst telur svigrúmið eiga að vera lítið, en hann er að ljúka við doktorsritgerð um ölvunarakstur. „Ökumenn eru byrjaðir að búa til sínar eigin skilgreiningar á því hvað er í lagi og hvað ekki,“ segir hann. Guðbrandur staðfestir að lögreglan þekki þá tilhneigingu vel. Núverandi refsimörk veiti svigrúm sem fólk vinni með. „Það eru ýmsar mýtur í gangi. En hvað felst í 0,5‰ ? Það getur verið mjög mismunandi, t.d eftir þyngd eða kyni,“ segir Ágúst. Betra sé að hafa mörkin nálægt núlli, „Þá er þetta alveg skýrt – það er ekkert svigrúm.“

Mörkin víða lægri

Sigurður Helgason hjá Umferðarstofu fagnar hugmyndum um lækkun refsimarka. „Ég tel að menn hljóti að taka jákvætt í þessa tillögu,“ segir hann.

Sænskar, ástralskar og bandarískar rannsóknir hafa sýnt fram á að með hertum reglum um áfengismagn í blóði ekur fólk síður af stað eftir að hafa neytt áfengis. Sigurður telur aðhald ekki síður geta skilað góðum árangri hér. „Mjög fáir þeirra sem hljóta akstursbann og þurfa að fara á námskeið aka t.d. drukknir aftur. Með því að lækka refsimörkin er enginn vafi, menn eru alltaf komnir yfir mörkin ef þeir drekka eitthvað.“

Þyngri refsing

Þannig er m.a. gert ráð fyrir að sviptingartími við áfengis- og vímuefnaakstur verði þyngdur. Menn missi t.a.m. skírteinið í eitt og hálft til tvö og hálft ár sé vínandamagn í blóði 1,2‰ til 2‰ í stað eins til tveggja ára nú. Fari vínandinn síðan yfir 2‰ missi þeir skírteinið í þrjú ár og sé um ítrekaðan ölvunarakstur að ræða vari svipting í þrjú til fimm ár eftir alvöru brots.

Þá er gert ráð fyrir að ráðherra geti í reglugerð ákveðið, að fengnum tillögum ríkissaksóknara, sektir að upphæð allt að 750 þúsund kr. fyrir brot á lögunum. Hámarksupphæð sekta í dag nemur 300.000 kr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert