Einar Vilhjálmsson og Ómar Ragnarsson hafa um helgina ekið hringinn í kringum landið á bíl knúnum íslensku metani. Aldrei fyrr hefur hringvegurinn verið ekinn á bíl knúnum alíslensku eldsneyti.
Netnotendur geta fylgst með leiðangrinum í gegnum gervihnött. Búnaður um borð í bílnum sýnir staðsetningu og ökuhraða bílsins. Hægt er að fylgjast með á vefsíðu með nákvæmu Íslandskorti sem uppfærist á 60 sekúndna fresti.
Hana er að finna hér.
Tilgangurinn með hringferðinni er að vekja athygli á þeim möguleikum sem felast í innlendri eldsneytisframleiðslu og metanbílum sem vistvænum og sparneytnum valkosti í samgöngum. Nýir metanbílar eru undanþegnir vörugjöldum og unnið er að því að bjóða almenningi upp á að breyta bílum sínum svo þeir geti gengið fyrir metani.
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra mun fara til móts við leiðangursmenn nú seinnipartinn og sitja undir stýri á metanbifreiðinni síðasta spölinn. Ferðinni lýkur við metanstöðina á Bíldshöfða 2.