Reglurnar eigi ekki alltaf við

Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri gamla Landsbankans, Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs …
Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri gamla Landsbankans, Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs gamla Landsbankans og Halldór J. Kristjánsson, annar bankastjóri gamla Landsbankans. Árvakur/Sverrir

Reglur um útlán til eigenda eða þeirra sem venslaðir eru bönkum miðast við lánagreiðslur til þeirra, en þær eiga ekki við ef þeir yfirtaka ábyrgð lána sem bankinn hefur þegar lánað. Þetta segir Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Björgólfsfeðga, í tilefni af fréttum um að Fjármálaeftirlitið rannsaki nú hvort gamli Landsbankinn hafi lánað félögum, sem tengdust þáverandi eigendum bankans, vel yfir lögbundið hámark

„Stærstu ábyrgðir eigenda Samson gagnvart Landsbankanum varða Gretti og Eimskip en frá því var öllu greint í tilkynningu til fjölmiðla þann 4. maí síðastliðinn,“ segir Ásgeir.

Þar segir m.a.:

Mikilvægt er að leggja áherslu á, vegna skuldbindinga ofangreindra félaga (þ.e. Grettis og Eimskips) við Landsbanka Íslands, að upphaflega lánaði Landsbankinn Gretti til að kaupa hlutabréf í Eimskipi og Icelandic þegar Grettir var í meirihlutaeigu annarra en Björgólfs. Eftir  að Björgólfur varð aðaleigandi Grettis gekkst hann í persónulegar ábyrgðir umfram skyldu sína til að treysta veð bankans og því falla nú allar skuldir Grettis á hann. Ekki var stofnað til þessara skuldbindinga Grettis við bankann á meðan Björgólfur var meirihlutaeigandi í félaginu. Þessi viðskipti voru ekki íþyngjandi fyrir lausafjárstöðu bankans á árinu 2008.

Fyrirgreiðsla til eigenda banka og fjármálafyrirtækja er háð ákveðnum reglum. Lánanefnd gerir tillögu til bankaráðs, um afgreiðslu málsins. Við þá afgreiðslu víkja þeir sem hagsmuna eiga að gæta og bankaráð afgreiðir lánið. Ytri endurskoðendur hafa eftirlit með því að fyrirgreiðsla við þessa aðila sé í samræmi við kjör annarra sambærilegra aðila. Upplýsingar um þessar lánveitingar eru veittar endurskoðunarnefnd bankans og Fjármálaeftirlitinu og gerð er ítarleg grein fyrir þeim í öllum árs- og árshlutareikningum bankans. Allar ákvarðanir sem tengdust lánum til fyrirtækja Björgólfs voru í  fullu samræmi við almennar reglur um útlán banka til eigenda og stjórnarmanna í bönkum og fjármálafyrirtækjum. Björgólfur vék sæti úr bankaráði Landsbankans þegar þessi mál voru til meðferðar í ráðinu.

Þá tekur Ásgeir fram að Magnús Þorsteinsson hafi selt hlut sinn í Samson og þá um leið í Landsbankanum 2005 – 2006 og hafi síðan þá hvorki talist tengdur né venslaður Landsbankanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka