„Auðvitað verður enginn frestur eða töf á því, enda hefur Alþingi talað,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, formaður þingflokks Samfylkingar, um þá skoðun Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að fresta beri aðildarviðræðum við ESB þar til betur stendur á og Íslendingar eru ekki beittir hótunum. „Að sjálfsögðu höldum við áfram með umsóknina eins og Alþingi hefur lagt á okkur að gera,“ segir Björgvin.
„Burtséð frá skoðunum einstakra þingmanna og ráðherra þá ber ríkisstjórninni að framfylgja nýsamþykktri þingsályktun um umsókn. Þingmenn og ráðherrar mega hafa þær skoðanir sem þeir vilja á málum svo lengi sem þeir eru sáttir við þann meirihluta sem þeir starfa í.“