Lögregla var kölluð til að Leiknisvelli í Breiðholti í kvöld þar sem að minnsta kosti tveir leikmenn 3. deildar liðs Afríku réðust að dómara sem dæmdi leik liðsins gegn Ými. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins verður málið tekið föstum tökum á fundi aganefndar Knattspyrnusambands Íslands á morgun.
Upp úr sauð þegar einn leikmanna Afríku fékk að líta rauða spjaldið og í kjölfarið veittist markvörður Afríku að dómaranum. Hann fékk meðal annars hnefahögg í andlitið og gera þurfti að sárum eins leikmanns Ýmis sem fékk einnig högg í andlitið frá leikmanni Afríku.