Fréttaskýring: Fátæk lönd kenna á íslensku kreppunni

Namibía. Stærstu verkefnin eru á sviði sjávarútvegs en einnig hefur …
Namibía. Stærstu verkefnin eru á sviði sjávarútvegs en einnig hefur verið unnið með frumbyggjahópum. Þessi Himba-börn sækja forskóla í tjaldi. Mynd Gunnar Salvarsson

Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) minnkar umfang starfsemi sinnar um 30% á þessu ári og eftir það næsta nemur samdrátturinn nærri helmingi. Ekki er þó eingöngu minni fjárframlögum um að kenna; óhagstæð gengisþróun hefur mest að segja.

Á dögunum var tilkynnt um að ÞSSÍ hætti starfsemi sinni í Namibíu í lok næsta árs eftir tuttugu ára starfsemi þar í landi. Áður hafði umdæmisskrifstofu stofnunarinnar á Srí Lanka verið lokað og verið er að loka skrifstofunni í Níkaragva.

Samdrátturinn kemur, eins og gefur að skilja, til vegna efnahagshrunsins hér á landi. Utanríkisþjónustan hyggst lækka framlög sín til þróunarsamvinnu um milljarð á næsta ári, en í ár nema þau um 4,2 milljörðum þegar allt er talið. Sparnaður í utanríkisþjónustunni er þó ekki eina ástæðan; framlag ríkisins til stofnunarinnar var um 1,9 milljarðar króna í fyrra en er um 1,6 milljarðar í ár. Samdrátturinn nemur hins vegar um 30% vegna gengismunarins. „Frá árinu 2001 höfum við gert alla okkar samninga í bandarískum dollurum því gengi krónunnar hefur verið svo sveiflukennt. Lækkunin frá 2008 til 2009 er því rétt rúmlega 30% sem þýðir að við höfum þurft að taka ákvörðun um að draga okkur út úr helmingi okkar samstarfslanda,“ segir Sighvatur Björgvinsson, framkvæmdastjóri ÞSSÍ.

Hann segir að lögð sé áhersla á að standa við þá samninga sem þegar hafi verið gerðir. „Nóg er nú samt um álitshnekkinn sem Ísland hefur orðið fyrir á alþjóðavettvangi þótt það bætist nú ekki við að við stöndum ekki við skuldbindingarnar sem við höfum gert við fátækustu lönd í heimi.“

Eftir standa verkefni stofnunarinnar í þremur samstarfslöndum, Malaví, Mósambík og Úganda. „Ég held að lengstu verkefnin séu til ársloka 2012 en við eigum enga peninga til að ráðast í undirbúning nýrra. Það þýðir að það fjarar mjög hratt undan stofnuninni því þá er ekkert til að taka við af þeim verkefnum sem klárast.“

Vorum að ná viðmiði ESB

Sighvatur á von á að eftir næsta ár muni samdrátturinn vegna minni fjárframlaga og gengisþróunarinnar hafa náð helmingi umsvifa stofnunarinnar. Hins vegar býst hann ekki við mjög langvarandi samdrætti, m.a. vegna krafna Evrópusambandsins um að ríki þess verji sem svarar 0,35% af vergum þjóðartekjum til þróunarmála.

„Þá kröfu þurfa þau ríki, sem eru að gerast aðilar að Evrópusambandinu, að uppfylla, jafnvel þótt þau séu miklu fátækari en Ísland. Við vorum um það bil að ná þessu marki þegar áfallið dundi yfir. Ég held að það sé almennur skilningur á því hjá væntanlegum bandalagsþjóðum okkar að við svona aðstæður sé okkur ókleift að auka mikið við okkar þróunaraðstoð á næstu tveimur, þremur árum.“ Þegar til lengri tíma sé litið muni Ísland þó þurfa að axla þá ábyrgð. „Það verður samdráttur í ár og á næsta ári og hugsanlega 2011, en svo vona ég að fari að réttast úr kútnum.“

Aðstoð hætt

Verkefni ÞSSÍ í Namibíu voru í byrjun mest á sviði sjávarútvegs. Íslenskir sérfræðingar hafa starfað þar við hafrannsóknir, namibískir líffræðingar fengið þjálfun á Íslandi og íslenskir kennarar störfuðu við sjómannaskóla ytra um árabil. Síðustu misseri hafa verkefnin þó einkum verið félagsleg til stuðnings jaðarhópum, s.s. frumbyggjum og heyrnarlausum.

Í Níkaragva hefur aðstoð ÞSSÍ verið á sviði jarðhita, en einnig í mennta- og heilbrigðismálum. Einn starfsmaður stofnununarinnar heldur áfram starfi ytra út árið 2012 vegna jarðhitaverkefnisins.

Á Srí Lanka voru verkefnin aðallega í sjávarútvegi og stóð ÞSSÍ m.a. að byggingu þjónustumiðstöðva við löndunarstaði. Áherslur tóku þó einnig mið af Tsunami-hamförunum sem léku landið grátt í árslok 2004.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka