Mikið moldrok er á Suðurlandi í dag. Á Rangárvöllum sést ekki til Heklu eða annarra fjalla. Landgræðslustjóri segir að moldrokið sé það versta sem hann hafi séð í mörg ár.
Í þurrkunum að undanförnu hefur borið á moldroki af hálendinu niður í byggð á Suðurlandi. „Í dag keyrir þetta um þverbak. Það sér hvergi til fjalla vegna moldroks. Einnig fýkur úr öllum opnum jarðvegssárum á láglendi,“ segir Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri á Rangárvöllum.
Átt er norðanstæð og telur Sveinn að mikill jarðvegur sé að fjúka til hafs í dag. Landgræðslustjóri segir ekki hægt að segja til um það hversu mikill skaði sé að verða á gróðri en telur hætt við uppblástri á hálendisbrúninni.
Sveinn telur að moldrokið komi af öllu sunnanverðu hálendinu. „Ég þykist vita að þetta sé frá Vatnajökli og hálendinu vestur um.“ Honum virðist þó minna moldrok koma frá Haukadalsheiði en fyrr á árum, áður en ráðist var í mikla uppgræðslu þar, en segir ekki hægt að fullyrða um það strax.
„Þetta er alvarleg ábending til okkar landsmanna um að við þurfum að herða róðurinn í að græða sárin og vanda okkur enn betur við nýtingu lands á hálendinu til beitar. Við þurfum að vernda gróðurinn betur. Ég er ekki þar með að segja að uppblásturinn sé beitinni að kenna en beitin á sunnlensku afréttunum dregur úr þeim bata sem er að verða í kjölfar hlýnandi veðráttu,“ segir Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri.