Ökumaður bifreiðar sem staðinn var að utanvegaakstri á Sprengisandi í gær var gert að greiða háa fjárhæð í sekt fyrir aksturslagið. Er sektin á annað hundrað þúsund krónur en lögreglan á Hvolsvelli fékk tilkynningu um aksturslag mannsins frá vegfarenda sem sá til bifreiðarinnar utan vega.
Hafði lögreglan samband við hálendisvakt Landsbjargar sem fann bifreiðina og fylgdi henni til byggða. Þar tóku lögreglumenn frá Akureyri á móti bifreiðinni og færðu ökumann hennar á lögreglustöðina á Akureyri þar sem honum var gert að greiða sektina á staðnum.
Lögreglan vill hvetja þá sem vitni verða að utanvegaakstri til þess að taka ljósmyndir af gerendum og vettvangi og tilkynna til lögreglunnar í því umdæmi sem það er staðsett í, að því er fram kemur á vef lögreglunnar.