Spurt um jarðskjálftaspádóm

Frá Krýsuvík
Frá Krýsuvík Rax / Ragnar Axelsson

Nokkuð hef­ur verið hringt til Al­manna­varna og eins Veður­stof­unn­ar und­an­farið vegna spá­dóms um öfl­ug­an jarðskjálfta á Reykja­nesi í kvöld. Hringt var í síðustu viku og eitt­hvað um helg­ina, en ekki í dag.

Víðir Reyn­is­son, deild­ar­stjóri al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra, sagði fólk hafa hringt og spurt hvort sér­stak­ur viðbúnaður sé viðhafður vegna þessa. Hann sagði ekki hægt að segja það.

For­veri Víðis í starfi hélt vel utan um til­kynn­ing­ar þeirra sem sögðu fyr­ir óorðna at­b­urði eða hafði dreymt fyr­ir þeim, en nokkuð er um að slíkt sé til­kynnt. „Það hef­ur alla tíð mikið verið haft sam­band við Al­manna­varn­ir með svona spá­dóma en við eig­um erfitt með að tengja þá við at­b­urði sem orðið hafa. Það er alla­vega ekki mjög al­gengt,“ sagði Víðir. 

Bergþóra S. Þor­bjarn­ar­dótt­ir, jarðeðlis­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands, sagði að dá­lítið hafi verið haft sam­band við Veður­stof­una vegna jarðskjálfta­spá­dóms­ins um síðustu helgi og fyr­ir síðustu helgi. Eng­inn hafði hringt í morg­un. Bergþóra tók ekki á móti þeim hring­ing­um. En eru meiri lík­ur á stór­um jarðskjálfta í dag en aðra daga?

„Það er ekk­ert sem bend­ir til þess,“ sagði Bergþóra. Hún sagði að jarðskjálft­ar á Reykja­nesi fari yf­ir­leitt ekki yfir sex stig að stærð. Hún sagði eng­ar lík­ur á að þar geti orðið upp­tök jarðskjálfta af stærðargráðunni átta. Til þess sé bergið of veikt.

Tíma­ritið Vik­an greindi frá því á forsíðu ný­lega að Lára Ólafs­dótt­ir sjá­andi hafi sagt að stór jarðskjálfti muni ríða yfir 27. júlí.  Upp­tök skjálft­ans áttu sam­kvæmt spá­sögn­inni að verða á Krýsu­vík­ur­svæðinu kl. 23.15 og skjálft­inn að verða mjög öfl­ug­ur. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert