Nokkuð hefur verið hringt til Almannavarna og eins Veðurstofunnar undanfarið vegna spádóms um öflugan jarðskjálfta á Reykjanesi í kvöld. Hringt var í síðustu viku og eitthvað um helgina, en ekki í dag.
Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, sagði fólk hafa hringt og spurt hvort sérstakur viðbúnaður sé viðhafður vegna þessa. Hann sagði ekki hægt að segja það.
Forveri Víðis í starfi hélt vel utan um tilkynningar þeirra sem sögðu fyrir óorðna atburði eða hafði dreymt fyrir þeim, en nokkuð er um að slíkt sé tilkynnt. „Það hefur alla tíð mikið verið haft samband við Almannavarnir með svona spádóma en við eigum erfitt með að tengja þá við atburði sem orðið hafa. Það er allavega ekki mjög algengt,“ sagði Víðir.
Bergþóra S. Þorbjarnardóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði að dálítið hafi verið haft samband við Veðurstofuna vegna jarðskjálftaspádómsins um síðustu helgi og fyrir síðustu helgi. Enginn hafði hringt í morgun. Bergþóra tók ekki á móti þeim hringingum. En eru meiri líkur á stórum jarðskjálfta í dag en aðra daga?
„Það er ekkert sem bendir til þess,“ sagði Bergþóra. Hún sagði að jarðskjálftar á Reykjanesi fari yfirleitt ekki yfir sex stig að stærð. Hún sagði engar líkur á að þar geti orðið upptök jarðskjálfta af stærðargráðunni átta. Til þess sé bergið of veikt.
Tímaritið Vikan greindi frá því á forsíðu nýlega að Lára Ólafsdóttir sjáandi hafi sagt að stór jarðskjálfti muni ríða yfir 27. júlí. Upptök skjálftans áttu samkvæmt spásögninni að verða á Krýsuvíkursvæðinu kl. 23.15 og skjálftinn að verða mjög öflugur.