Vilja aukinn skötuselskvóta

Stjórn Landssambands smábátaeigenda skorar á Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að auka nú þegar leyfilegan heildarafla í skötusel um 1.000 tonn.

Á sumarfundi stjórnar Landssambands smábátaeigenda, LS, sem haldinn var í grundarfirði í liðinni viku var rætt um veiðar á skötusel. Í samþykkt stjórnar LS er þeim tilmælum beint til ráðherra að hann breyti að auki reglum um meðafla við grásleppuveiðar þannig að skötuselur teljist ekki til kvóta við þær veiðar.

Smábátasjómenn segja stóraukna útbreiðslu skötusels hafa leitt til vandamála við grásleppuveiðar.

„Skötuselur, sem er ránfiskur, ásælist grásleppuna og lendir í auknum mæli sem óæskilegur afli við veiðarnar. Flestir grásleppubátar hafa ekki veiðiheimildir í skötusel, enda hefur það verið nánast óþekkt að hann veiðist í grásleppunet. Nú hefur hins vegar orðið breyting á og því brýnt að taka á þeim vanda með því að hann teljist ekki til kvóta við þann veiðiskap,“ segir í samþykkt stjórnar LS.

Stjórnin telur réttlætanlegt að veiði á skötusel sé töluvert umfram það sem Hafrannsóknastofnun leggur til. LS vísar til tilkynningar sjávarútvegsráðherra frá 10. júlí sl. um ákvörðun aflahámarks fyrir næsta fiskveiðiár. Þar segir eftirfarandi:

„Varðandi skötusel skal það tiltekið að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason hefur ákveðið aflahámark er svarar til 2.500 tonna sem er í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar. Ráðherra tekur þó fram að hann hefur í hyggju að skoða aðrar leiðir til viðbótar varðandi fiskveiðistjórn í skötusel. Veruleg breyting hefur orðið á útbreiðslu skötusels hér við land á þessum áratug. Veiðislóðin var í áratugi aðallega við mið- og austurhluta suðurstrandarinnar og á þeim grunni var upphafs aflahlutdeild úthlutað. Nú hefur þessi veiðislóð í vaxandi mæli færst á Vesturmið og jafnvel norður. Þetta hefur jafnframt þýtt að skötuselur hefur í vaxandi mæli komið fram sem meðafli við grásleppuveiðar á grunnsævi í Breiðafirði og Ísafjarðardjúpi. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, mun vegna þessa leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða á haustþingi þar sem á þessum atriðum og fleirum verður tekið með almennum hætti. Jafnframt hefur ráðherra í hyggju að setja reglugerð um umgengni við þennan stofn þar sem að tekið verður fyrir fjöldi neta á bát, vitjunartími neta og fleira því skylt.“

Vefur Landssambands smábátaeigenda

Tilkynning sjávarútvegsráðherra um ákvörðun heildaraflamarks

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert