„Algjör misskilningur“

„Það má ekki skilja orð mín svo að ég sé alfarið á móti auknum fjárveitingum til lögreglu. Það er bara algjör misskilningur. Það sem við erum að gera núna er að huga að þessu: Hvað á lögreglan að gera og hvað kostar það mikinn pening,“ segir dómsmálaráðherra spurður út í löggæslumál.

„Ég býst við því að við getum kynnt einhverjar tillögur til sögunnar innan skamms. Umræðan er bara það heit, ef ég má segja svo, að ég held að við getum ekki beðið með það öllu lengur. Við erum að klára vinnuna,“ segir Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra.

Verja eigi grunnþjónustuna og tryggja öryggi borgaranna.

„Í því sambandi þarf að fara í gegnum það hvað t.d. þarf marga lögreglumenn til að tryggja öryggi borgaranna á hverjum stað. Hvers konar lögreglumenn eru þetta? Við höfum sagt að það þurfi að minnka yfirbyggingu, þannig að það er ýmislegt sem þarf að skoða í þessu samhengi sem við verðum að taka svolítið vísindalega.“ 

Lögreglustjórinn svari fyrir sína starfsemi

Aðspurð segist Ragna ekki hafa fengið tölvupósta eða ábendingar frá almennum lögreglumönnum vegna þeirrar óánægju sem hefur ríkt. Það sé miður. Hún hvetur þá sem vilja koma sínum sjónarmiðum á framfæri að hafa samband, t.d. með því að senda tölvupóst.

„Ég hef að vísu auðvitað heyrt sjónarmið innan úr lögreglunni. Og ég verð bara að segja þá skoðun mína, eftir umræðu síðustu viku, að það sé komið að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu að svara fyrir sína starfsemi.

Guðmundur Fylkisson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, skrifar grein í Morgunblaðið í dag, þar sem hann fjallar um störf lögreglunnar. Þar segir m.a.:

„Ég veit ekki hvort almenningur eða stjórnmálamenn átta sig á því að fjárveitingar til lögreglu eru og hafa verið of lágar. Löggæslan þarf, af nauðsyn, að miða sig mjög mikið við skemmtanalíf landsins og afleiðingar áfengisneyslu. Þannig er meiri áhersla lögð á kvöld- og helgarlöggæslu, en að degi til er löggæslan í þvílíku lágmarki að skömm er að.“

Dómsmálaráðherra segist geta tekið undir mörg þau sjónarmið sem komi fram í grein Guðmundar.

„Ég held að það séu mörg áhugaverð atriði sem bréfritari bendir á, t.d. hvað varðar inntak lögreglustarfsins og lögreglan á að gera. Þetta eru mjög góðir punktar hjá honum,“ segir ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert