Bagalegt ef fyrirtaka AGS tefst

00:00
00:00

Fjár­málaráðherra seg­ist von­ast til að Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn (AGS)muni ræða mál­efni Íslands og end­ur­skoðun efna­hags­áætl­un­ar­inn­ar á fundi sín­um á mánu­dag. Allt sé klárt af hálfu ís­lenskra stjórn­valda. Það yrði baga­legt ef fyr­ir­taka máls­ins myndi frest­ast. Það skýrist vænt­an­lega á næstu klukku­tím­um eða sól­ar­hring­um hvort það ger­ist.

„Eins og stend­ur þá von­um við enn að fyr­ir­tekt­in geti átt sér stað. Eitt er víst, og það er það, að það er allt klárt af hálfu ís­lenskra stjórn­valda. Og það höf­um við fengið staðfest hjá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum. Við höf­um náð að upp­fylla öll þau skil­yrði sem reiknað var með að þyrftu að vera til staðar til þess að sjóður­inn gæti tekið málið fyr­ir. Þannig að það verður þá eitt­hvað annað en það sem stend­ur upp á ís­lensk stjórn­völd sem kæmi til með að tefja fyr­ir­töku máls­ins,“ seg­ir Stein­grím­ur.

„Það eru þrír dag­ar til stefnu í byrj­un ág­úst. Ef að það næst ekki fyr­ir þann tíma þá kem­ur hlé hjá sjóðnum fram und­ir lok ág­úst. Þannig að það verður þá mjög baga­leg­ur drátt­ur á öllu okk­ar pró­grammi, ef að sú verður niðurstaðan,“ seg­ir Stein­grím­ur enn­frem­ur.

Aðspurður seg­ir hann málið vera í mjög viðkvæmri stöðu. „Við skul­um bara sjá hvað verður á næstu klukku­tím­um eða sól­ar­hring­um.“

 Sam­kvæmt upp­haf­legu áætl­un­inni frá því í nóv­em­ber 2008 var gert ráð fyr­ir að fyrstu tvær end­ur­skoðan­irn­ar og greiðslur tengd­ar þeim færu fram í fe­brú­ar og maí á þessu ári. Fyr­ir­taka sjóðsins á fyrstu end­ur­skoðun efna­hags­áætl­un­ar­inn­ar hef­ur taf­ist ít­rekað þar sem ekki höfðu öll skil­yrði til fyr­ir­töku verið upp­fyllt í tæka tíð.

Í Hag­sjá hag­deild­ar Lands­bank­ans seg­ir að nú hafi dregið til tíðinda þar sem sam­komu­lag stjórn­valda við skila­nefnd­ir bank­anna þriggja var kynnt í síðustu viku auk þess sem skýrsla um jöfnuð í rík­is­fjár­mál­um 2009-2013 var lögð fyr­ir Alþingi í lok júní.
 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka