Björgólfur Thor Björgólfsson, auðmaður, segir í bréfi sem hann sendi fjölmiðlum síðdegis að hvorki hann né nein fyrirtæki á hans vegum hafi millifært fé af reikningum í Straumi til erlendra skattaparadísa. Þá hafi né Straumur ekki haft milligöngu um að stofna félög í erlendum skattaparadísum fyrir Björgólf Thor. Hann segir íslenska fjölmiðla hafa tekið að sér að dreifa skipulögðum óhróðri, véfréttum og lygum um sig og hyggst sækja rétt sinn fast vegna þess.
Yfirlýsing Björgólfs Thors:
"Vegna rangfærslna í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi um millifærslur á mínum vegum úr Straumi í erlend skattaskjól um mánaðamótin september og október á síðasta ári og yfirlýsingar fréttastofunnar í dag um að hún standi við frétt sína þrátt fyrir samtal mitt við fréttastjórann í gærkvöldi þar sem ég sagði honum eins og er að þetta væru ósannindi og bað hann um að hafa eftir mér að þetta væru “lygar”, sem var ekki gert í athugasemd, vil ég koma eftirfarandi á framfæri;
Hvorki ég eða nein fyrirtæki á mínum vegum millifærðu fé af reikningum í Straumi til erlendra skattaparadísa né hafði Straumur milligöngu um a stofna félög í erlendum skattaparadísum fyrir mig og er því frétt Stöðvar 2 algerlega ósönn hvað mig varðar og mín fyrirtæki.
Rétt er að fram komi að öll gögn um viðskipti Straums og viðskiptavina sinna eru nú í höndum opinberrar skilanefndar og er það því á valdi opinbera aðila að sannreyna hið rétta í þessu máli og kvíð ég því ekki. Þá hef ég óskað eftir því við lögmann minn að hann kanni stöðu mína í því flóði skipulagðs óhróðurs, véfrétta og lyga sem vef- og fjölmiðlar á Íslandi hafa tekið að sér að dreifa um mig og fyrirtæki mín. Ég tel þetta mál vera grafalvarlegt og mun ég sækja rétt minn eins fast og hægt er."