Arðsemi íslenskra orkufyrirtækja lítil

Kárahnjúkavirkjun
Kárahnjúkavirkjun mbl.is/RAX

Arðsemi af fjármagni bundið í orkuvinnslu er rúmlega helmingi minni að jafnaði en í annarri atvinnustarfsemi, að stóriðju og fjármálastarfsemi undanskilinni. Þá er arðsemi íslenskra orkufyrirtækja talsvert lakari en orkufyrirtækja í Bandaríkjunum og Evrópu.

Þetta er meðal niðurstaðna í fyrstu áfangaskýrslu um mat á afrakstri orkusölu til erlendrar stóriðju fyrir íslenska þjóðarbúið sem unnin var fyrir fjármálaráðuneytið.

Á undanförnum árum hafa fjárfestingar í orkuverum til að selja orku til stóriðjuvera farið vaxandi hérlendis. Mest af þessum framkvæmdum hefur verið á vegum orkufyrirtækja í opinberri eigu. Mjög takmarkaðar athuganir á þjóðhagslegri hagkvæmni þessarar þróunar hafa verið gerðar. Efnahags- og þróunarstofnunin (OECD) hefur oftsinnis kallað eftir því í skýrslum sínum að gerð verði athugun á þessu, nú síðast í febrúar 2008.

Í apríl 2009 samdi Fjármálaráðuneytið við Sjónarrönd ehf. um að framkvæma mat á afrakstri orkusölu til erlendrar stóriðju fyrir íslenska þjóðarbúið.

Verkefnið greinist í tvo meginverkþætti. Annars vegar á að leggja mat á arðsemi orkusölu til stóriðju og hins vegar á að meta þjóðhagsleg áhrif af erlendum fjárfestingum í stóriðju. Áfangaskýrslan sem nú hefur verið skilað er í samræmi við verkáætlun en endanlegum niðurstöðum verður skilað síðar á árinu.

Helstu niðurstöður áfangaskýrslunnar eru að

  • Samanburður á arðsemi orkufyrirtækja og arðsemi í annarri atvinnustarfsemi hérlendis gefur til kynna að arðsemi af fjármagni sem bundið var í orkuvinnslu og dreifingu 1988-2006 hafi að jafnaði verið um 1,7%, samanborið við 3,8% í annarri atvinnustarfsemi að stóriðju og fjármálastarfsemi undanskilinni.
  • Samanburður á arðsemi íslenskra orkufyrirtækja og orkufyrirtækja í Evrópu og Bandaríkjunum bendir til að hún sé talsvert lakari hér á landi. Á því tímabili sem skoðað var (2000-2006/8) var arðsemi af fjármagni sem bundið er í orkuvinnslu og dreifingu eftir skatta í námunda við 10,8% í Bandaríkjunum og um 7% í Evrópu en einungis um 2,4% á Íslandi.
  • Í Evrópu og Bandaríkjunum standast orkufyrirtæki arðsemiskröfu betur en aðrar atvinnugreinar. Íslensk orkufyrirtæki standast hana þriðjungi verr en aðrar íslenskar atvinnugreinar.
  • Kostnaður vegna kaupa á kolefniskvótum getur haft umtalsverð áhrif á arðsemi orkufrekra fyrirtækja sem losa gróðurhúsalofttegundir.
  • Miðað við líklegan náttúrukostnað af dæmigerðum virkjanaframkvæmdum er þjóðhagsleg arðsemi þeirra sennilega umtalsvert minni en hefðbundnir arðsemisreikningar (sem ekki taka tillit til umhverfisspjalla) gefa til kynna.
  • Stóriðja jókst mjög að fyrirferð í hagkerfinu fram á 2008. Ný álver tóku til starfa og verð á áli og orku hækkaði mikið um tíma. Þá hafa framkvæmdir við stóriðju kynt undir þenslu á vinnumarkaði undanfarin ár. Miklar sveiflur eru í þessum geira. Í júni 2009 er verð á áli og rafmagni frá stóriðju rétt rúmur helmingur þess sem var á sama tíma í fyrra í dollurum talið. Tekjur íslenskra orkufyrirtækja minnka að sama skapi og niðursveifla í efnahagslífinu verður meiri en ella.

Fyrir hönd Sjónarrandar unnu að gerð skýrslunnar Þorsteinn Siglaugsson hagfræðingur, Dr. Sigurður Jóhannesson hagfræðingur, Dr. Ásgeir Jónsson lektor við Háskóla Íslands og Dr. Ragnar Árnason prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.

Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins segir að ljóst sé að orkuframkvæmdir til stóriðjunota hafi ýmsar efnahagslega jákvæðar hliðar. Á móti þessum kostum komi hins vegar veigamikil atriði sem hugsanlega eru neikvæð. Takmarkaðar upplýsingar og rannsóknir liggi fyrir um þessa þætti alla og þar með afrakstur mjög hraðrar uppbyggingar í orkuiðnaði og stóriðju – þ.e. hve ódýra orku Íslendingar geta raunverulega boðið án þess að bera skarðan hlut frá borði. Markmið úttektarinnar er að varpa ljósi á þetta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka