Lítil trú á efnahagsmálum

Karlar eru bjartsýnni en konur skv. könnuninni þrátt fyrir að …
Karlar eru bjartsýnni en konur skv. könnuninni þrátt fyrir að fleiri karlar séu atvinnulausir en konur. Rax / Ragnar Axelsson

Trú Íslendinga á atvinnumálum og efnahagsaðstæðum lands og þjóðar er afar lítil um þessar mundir. Samkvæmt væntingarvísitölu Gallup fyrir júlímánuð hefur hún einungis einu sinni mælst lægri, í janúar síðastliðnum.

Vísitalan mældist 20,9 stig og lækkaði um 21% frá fyrri mánuði. Væntingavísitalan tekur gildi á bilinu 0-200 og táknar gildið 100 að jafnmargir svarendur séu jákvæðir og neikvæðir. Núverandi gildi er sérstaklega lágt og gefur mynd af ríkri neikvæðni meðal almennings í landinu. 

Væntingar til sex mánaða hafa aldrei mælst lægri, 30,5 stig, og lækkuðu um 22% milli mánaða. Könnunin var gerð í byrjun júlí og benda niðurstöður til þess að landsmenn búist við að komandi vetur verði erfiður.

Karlar mælast töluvert jákvæðari en konur í könnuninni. Þeir hafa raunar ávallt mælst jákvæðari í væntingavísitölunni fyrir utan eitt skipti í september 2007. Að þessu sinni er það áhugavert í ljósi þess að fleiri karlar en konur eru atvinnulausir þar sem niðursveiflan hefur komið verr niður á hefðbundnum karlastéttum, s.s. byggingastarfsemi. Kannanir hafa sýnt að konur stjórna útgjöldum heimilanna í mun meiri mæli en karlar og því kann útskýringin að vera að þær finni betur fyrir því þegar kreppir að.

Mikill munur sést jafnframt á tiltrú fólks eftir menntun þess. Þeir sem eingöngu hafa lokið grunnskólaprófi hafa afar lágar væntingar og mælist vísitalan einungis 5,5 stig fyrir þann flokk.

Hagtölur hafa verið öfgakenndar síðustu misseri enda hefur íslenska efnahagskerfið siglt í gegnum mikinn ólgusjó. Slíku árferði fylgir mikil óvissa um hag fólks sem og þjóðarinnar í heild. Frá því könnun Gallup fór fram hefur ýmislegt komið fram sem dregur úr óvissu til skamms tíma, t.d. hefur Alþingi samþykkt að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið auk þess sem jafnframt liggur fyrir hvernig bankarnir verða endurfjármagnaðir. Eftir því sem óvissa minnkar, með aðgerðum og aukinni upplýsingagjöf, ættu væntingar að glæðast á ný.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka